Wednesday, April 14, 2010

Anastasia (1997)


Anastasia frá DreamWorks hefur alltaf verið ein af mínum uppáhalds teiknimyndum og horfði ég á hana svo oft þegar ég var yngri að VHS spólan mín eyðilagðist. Þess vegna var ég yfir mig ánægð þegar ég fann hana á DVD í London á dögunum. Það er skrítin reynsla að horfa á mynd, sem var ein af “æskuástunum”, mörgum áður síðar þegar maður er örlítið vitrari. Það var líka ný upplifun að horfa á hana á ensku en ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Áður fyrr gerði ég mér náttúrulega enga grein fyrir leikaraúrvalinu sem þarna er á ferð: Meg Ryan, John Cusack, Kelsey Grammer, Christopher Lloyd, Hank Azaria, Angela Lansbury ofl.

Teiknimyndin er byggð á þjóðsögunni um að Anastasia, yngsta dóttir seinasta keisara Rússlands Nikulásar II, hafi sloppið þegar Romanov fjölskyldan var aflífuð eftir byltinguna árið 1916. Seiðkarlinn Rasputin, fyrrverandi ráðgjafi keisarans, hét því að hann skyldi ekki hvílast fyrr en Romanov ættin væri þurrkuð út. En ungur drengur hjálpar Anastasiu og ömmu hennar, Dowager keisaraynju, að sleppa. Þær verða þó viðskilja og Anastasia hlýtur þungt högg á höfuðið. Hún missir minnið og endar á munaðarleysingjahæli undir nafninu Anya og með hálsmen frá ömmu sinni sem á stendur “together in Paris”. Þegar Anya verður 18 ára fer hún af munaðarleysingjahælinu og ákveður að komast að uppruna sínum í París. Henni er sagt að maður í gömlu keisarahöllinni geti hugsanlega hjálpað. Þar hittir hún ungan mann að nafni Dimitri og vin hans Vladimir, sem eru svikahrappar. Þeir uppgvöta að Anya er ótrúlega lík keisaradótturinni Anastasiu og ákveða að þjálfa hana, fara með hana til Parísar og segja Dowager keisaraynju að þar sé sonardóttir hennar á ferð. Ef áætlunin heppnast fá þeir að sjálfsögðu verðlaunaféð sem keisaraynjan býður þeim sem finnur barnabarn sitt. En illi Rasputin veit sannleikann um munaðarleysingjann Anyu og gerir allt í sínu valdi til að drepa seinasta meðlim Romanov fjölskyldunnar.

Hér fer ljáir Meg Ryan rödd sína Anastasiu en Kristen Dunst talar fyrir hana þegar hún er yngri. John Cusack leikur Dimitri og er ótrúlega gaman að fylgjast með “love/hate”-sambandi hans og Anastasiu, mjög raunvörulegt fyrir teiknimynd. Angela Lansbury talar snilldarlega fyrir ömmu Anastasiu og gefur myndinni meiri fágun og þokka. Christopher Lloyd (Doc Brown úr Back to the Future!) fer með rödd Rasputin og Hank Azaria fyrir leðurblökuna hans, Bartok. Kelsey Grammer er einnig skemmtilegur sem krúttlegi vinur Dimitri, Vladimir. Mjög skemmtilegt leikaraval.

Myndin er ótrúlega vel gerð og teikningarnar eru oftast alveg stórkostlega fallegar. Ég sakna tvívíða teiknimynda. Hún höfðar vissulega bæði til barna og fullorðinna. Það eina sem mér fannst skrítið á þessum aldri er svakalega ljóti seiðkarlinn í annars eðlilegri sögu, hann er augljóslega fyrir börnin. Litli frændi minn hafði alla vega mjög gaman af honum.

Myndin er leikstýrð af Don Bluth og Gary Goldman. Hún var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna fyrir bestu frumsömdu tónlist og besta frumsamda lag fyrir “Journey to the Past”. Það er einmitt það sem eflaust heillaði mig mest við Anastasiu, tónlistin. Mínar uppáhalds teiknimyndir eru allar með “legendary” tónlist.

Mér finnst Anastasia vera yndisleg mynd þrátt fyrir að hún fari rosalega lauslega með sögulegar staðreyndir, það er alveg hægt að líta framhjá því. Hún inniheldur spennu, húmor og raunvörulegar tilfinningar. Það var rosalega gaman að uppgvöta að ég hef enn jafn gaman af henni u.þ.b. tíu árum síðar.


P.S. Hvað vantar mig mörg stig upp í 10 í bloggeinkunn?

Monday, April 12, 2010

Umsögn

Þegar ég valdi kvikmyndagerð fyrir ári síðan var ég ekki viss við hverju ég átti að búast. Fagið og verkefnin reyndust erfiðari en ég bjóst við en oftast hafði ég gaman af. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna mætti ég þó lítið í skólann og missti af stórum hluta námskeiðsins. Því er ég ef til vill ekki hæf til að leggja dóm á það, en ég ætla alla vega að lýsa upplifun minni.

Skemmtilegasti hlutinn var að mínu mati að klippa myndir og læra á það meistaraverk sem Final Cut Pro er. Ég hef alltaf haft gaman af því að klippa og var það að hluta til ástæða þess að ég valdi fagið. Því var ég mjög ánægð með þann hluta þó að stuttmyndaverkefnin hafi verið tímafrek og krefjandi. Að klippa myndirnar var einnig það sem ég lærði mest af og ég er glöð með þá reynslu.

Ég var einnig ánægð með fyrirlestrana og fannst gaman að vinna þá. Er líka mjög fegin að handritamappan var haustannarverkefni vegna annríkis þessa stundina.
Mér fannst passlegt að hafa þrjár stuttmyndir og held að fjórar hefði verið of mikið. Það er mikil vinna og tími sem fer í gerð þeirra.

Mér fannst bloggið krefjandi hluti námskeiðsins að því leyti að það gleymdist einhvern veginn alltaf og það var erfitt að setjast niður og skrifa. En þó viðurkenni ég að þegar ég kom mér að verki fannst mér gaman að blogga, já ég sagði það.
Eitt sem ég er ánægðust með er einmitt að ég horfi mun gagnrýnari augum á kvikmyndir og tek eftir hlutum sem ég pældi aldrei í áður. Það kann ég rosalega mikið að meta.

Því miður missti ég af flestum myndunum sem voru sýndar í vetur og er svekkt með það, sérstaklega finnst mér það erfitt því þær eru til prófs. Þó er það kannski óhjákvæmilegt.

Í heildina litið er ég ánægð með fagið og hefði verið skemmtilegt að geta upplifað meira af því. Ég horfi allt öðrum augum á kvikmyndir og starf kvikmyndagerðafólks og er það einmitt það sem ég vonaðist til að fá út úr námskeiðinu. Svo ég vil bara þakka þér fyrir veturinn!

P.S. Nýtt blogg fyrir neðan.

Deliver Us from Evil (2006)

Deliver Us from Evil er leikstýrð af Amy Berg og er heimildarmynd um kaþólska prestinn, Oliver O’Grady, sem misnotaði og nauðgaði fjölda barna í starfi sínu sem prestur í Californíu frá árinu 1973. Amy Berg tekur viðtal við O’Grady og orð geta ekki lýst hversu hryllilegt er að hlusta á sextugan mann lýsa gjörðum sínum og hvernig hann misnotaði traust sóknarbarna sinna. Hann talar um að þetta sé hreinskilin játning hans svo hann geti hlotið fyrirgefningu. Hann hlýtur að vera virkilega truflaður ef hann heldur að hann eigi fyrirgefningu skilið. Hvernig O’Grady talar “casually” um hvernig hann misnotaði börn, það yngsta aðeins 9 mánaða. Hann byrjaði meira að segja “samband” með konu til að komast nær ungum syni hennar og misnota hann. Mér varð flökurt á að horfa á þennan mann, ég get ekki ímyndað mér hvernig Berg hlýtur að hafa liðið í návist hans.

Amy Berg talar einnig við nokkur fórnarlömb O’Grady og fjölskyldur þeirra. Það veitir manni mikla innsýn í sársaukann sem þau hafa gengið í gegnum og upplifa enn um þrjátíu árum síðar. Að sjá fullorðinn mann skæla vegna þess sem dóttir hans hefur mátt þola brýtur einfaldlega í manni hjartað. Þetta fólk var svikið af manni sem það treysti og kirkjunni þeirra. Þessi svik skildu eftir sig djúp sár á sálum þeirra.

Það mikilvægasta við Deliver Us from Evil er að hún afhjúpar valdagræðgina og yfirhylminguna meðal valdamanna kaþólsku kirkjunnar. Sannanir sýna að biskupar í Los Angeles vissu alveg frá byrjun af misnotkun Oliver O’Grady á börnum og hylmdu skipulega yfir því. Þeir fluttu hann aðeins í hvern smábæinn á eftir öðrum og þóttust ekkert vita. Þeir borguðu fjölskyldum gegn því að lögreglan yrði ekki látin vita og þeir lofuðu að O’Grady hefði engin tengsl við börn aftur. En aldrei stóðst það. Amy Berg sýnir okkur vitnisburði biskupa og cardinála og hvernig þeir forðast spurningar og hreinlega ljúga. Þessir menn hugsa aðeins um sinn eigin frama innan kaþólsku kirkjunnar og gera allt til að vernda orðspor sín. Samkvæmt trú þeirra eru þeir, sem hátt settir menn innan kirkjunnar, mikilvægari en börnin sem hafa hlotið skaða af yfirhylmingu og svikum þeirra. Þeim fannst “allt í lagi” þegar stúlkubörn eru misnotuð því það er alla vega ekki samkynhneigt. En þegar ungir drengir voru misnotaðir sögðu biskupar og yfirmenn kirkjunnar að þeir hefðu leyst vandamálið með því að fjarlægja samkynhneigða menn úr kirkjunni. Hversu sjúk hugsun...

Berg ræðir við sálfræðinga, guðfræðinga, aðgerðasinna og lögfræðinga um misnotkun kaþólskra presta á börnum og yfirhylmingu kirkjunnar. Mjög áhugavert er að heyra fræðimenn tala um vandamálið. Viðhorf kaþólsku kirkjunnar á kynlífi er svo óheilbrigt og einfaldlega ekki mannlegt svo það leiðir af sér alls kyns vandamál. Tölur sýna að um 10% presta sem hafa útskrifast úr “St. John’s Seminary” á vesturströnd Bandaríkjanna misnoti börn í stöðu þeirra innan kirkjunnar. Yfirmenn kirkjunnar gera ekkert nema hylma yfir þessu og hugsa um sín eigin rassgöt.

Deliver Us from Evil vaktu óhug hjá mér og mér leið hreinlega illa í sálinni. En mikið er ég fegin að það eru einhverjir að vekja athygli á þessum hrylling og á spillingunni innan kaþólsku kirkjunnar. Það er bara að vona að einn dag muni yfirmenn hennar viðurkenna vandamálið og þá geta breytingar og lagfæring hafist. Það verður að segjast að Oliver O’Grady er hugrakkur maður að koma fram og viðurkenna gjörðir sínar en þó hef ég ekkert nema fyrirlitningu á þessum manni. Þegar hann skrifar bréf til fórnarlamba sinna til að bjóða þeim að hitta sig svo hann geti beðist afsökunar, svo horfir hann í myndavélina og segir: “I hope we can all meet again real soon” og blikkar... Ég get svarið það, mér leið líkamlega illa.

Deliver Us from Evil var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu heimildarmynd og vann fjölda annarra verðlaun, meðal annars fyrir bestu heimildarmynd á Los Angeles Film Festival.

Heimildarmyndin er einstaklega vel unnin af Amy Berg og þó að hún taki viðtal við marga kemur hún eða rödd hennar aldrei fram. Myndatakan og klippingin er áhrifamikil og hún tengir viðtölin vel saman með myndum af O’Grady með ungu fórnarlömbunum og vitnisburði biskupa.

Oliver O’Grady var dæmdur til 14 ára fangelsisvistar árið 1993 en losnaði árið 2000. Hann var rekinn úr landi og fór aftur til heimalands síns, Írlands. Nú, árið 2010, er ekki vitað um dvalarstað O’Grady.

Sunday, April 11, 2010

Michael Collins (1996)


Fyrir stuttu horfði ég á heimildarmynd um “the Easter Rising” á Írlandi árið 1916 og fannst mér hún mjög áhugaverð. Svo í dag þegar ég var að velja mynd til að blogga um ákvað ég að horfa á “Michael Collins”. Ég hafði aldrei séð hana áður en mikið er ég glöð að hafa ekki látið þennan gullmola fara endanlega framhjá mér.

Írland á sér blóði drifna sögu og hefur írska þjóðin mátt þola margt. Árið 1916 reyndi “the Irish Republican Brotherhood” (IRB), að koma á írsku lýðveldi og hrekja Breta burt í orustu sem hefur verið kölluð “the Easter Rising”. Þeir töpuðu og voru flestir leiðtogar IRB aflífaðir. Michael Collins kom þá fyrst fram á sjónarsviðið og er í þessari mynd frá 1996 leikin snilldarlega af Liam Neeson. Collins er sjarmerandi maður og hefur mikla hæfileika sem leiðtogi. Neeson túlkar hann frábærlega og á allan hug áhorfandans. Hann sýnir Collins sem misskilinn mann sem elskar land sitt af ástríðu og er tilbúinn til að gera allt fyrir frelsi írsku þjóðarinnar. Hann er ákafur og sýnir myrku hliðar Collins jafnt og þær ljósu á sannfærandi hátt.
Michael Collins skipuleggur aflífun írskra uppljóstrara fyrir Breta og myrðir þá vægðarlaust, þetta vakti skiljanlega óhug hjá mörgum. Collins telur að eina leiðin til að koma hugsjónum þeirra um írskt lýðveldi á framfæri sé að sýna breska heimsveldinu miskunnarleysi þeirra. Þó er hann tregur til að samþykkja slík voðaverk. Bretar svara síðan í sömu mynt og fjöldi saklausra Íra er drepinn á fótboltaleik í Croke Park.

“I hate them for making hate necessary, and I'll do what I can to end it.” –Michael Collins

Eamon de Valera (Alan Rickman) er forseti írska þingsins, Dáil Éireann. Hann sendir Michael Collins til London til að semja við bresku stjórnina. Collins kemur aftur til Írlands með sáttmála sem samþykkir stofnun írska fríríkisins (free state) en norðrið tilheyrir enn fullkomlega Bretum og Írar þurfa að lýsa breska heimsveldinu hollustu sína. De Valera er ekki sáttur en Collins stendur fast á því að þetta sé það besta sem þeir geta gert í bili og aðeins fyrsta skrefið í átt að lýðveldi. Ósætti varðandi sáttmálann brýst út hjá þjóðinni og fljótt hefst borgarastyrjöld. De Valera er gegn sáttmálanum en Collins vill stöðva ofbeldið og samþykkja sáttmálann. Skelfilegt er að fylgjast með átökum á milli manna sem eitt sinn stóðu saman.
Undirliggjandi ástarsaga léttir aðeins yfir myndinni. Kitty Kiernan (Julia Roberts) er heillandi írsk stúlka sem er dáð og dýrkuð af bæði Michael Collins og besta vini hans Harry Boland (Aidan Q
uinn). Vinirnir keppa um ástir Kitty en þó er léttur andi yfir því. Liam Neeson er ótrúlega hrífandi sem Collins og er hann hnyttinn og myndarlegur.

"I want peace and quiet. I want it so much I'd die for it." -Michael Collins

Myndin skartar fjölmörgum frábærum leikurum. Ég hef þegar lofað frammi-stöðu Liam Neeson, ég einfaldlega dái og dýrka þennan mann. Það er ótrúlega gaman að fá alvöru blóðheitan, írskan mann í hlutverk þessarar þjóðhetju. Alan Rickman er frekar fullkominn í hlutverk Eamon de Valera og leikur af sömu snilld og alltaf. Þó svo að hann nái kannski ekki alveg “Íranum” í hlutverki sínu. Aidan Quinn leikur sidekick Collins og besta vin hans, Harry Boland. Ég get sko svarið það ég hélt að hann væri írskur. Hann má eiga það, hann stendur sig mjög vel. Julia Roberts er ekki alslæm sem Kitty Kiernan, hún verður skárri þegar líður á myndina. Hreimurinn hennar flakkar frá írskum til amerísks. Hún er gullfalleg og allt það, en gátu þeir í alvörunni ekki fundið írska leikkonu í hlutverkið? Julia Roberts er eiginlega of “commercial”. Jonathan Rhys Meyers birtist örstutt í endann og er mjög skemmtilegt að sjá hann svo rosalegan ungan í aukahlutverki.

Michael Collins er leikstýrð og skrifuð af Neil Jordan og á hann stórt hrós skilið.

Chris Menges sá um kvikmyndun og stóð sig stórkostlega. Litir og birta myndarinnar eru lýsandi fyrir andrúmsloftið í henni og umhverfið tekur mann hreinlega aftur á þennan tíma.
Tónlistin í Michael Collins er framúrskarandi. Hún dró mig inn í myndina og gerði það að verkum að ég upplifði allt það sama og persónurnar. Elliot Goldenthal samdi tónlistina og er ákveðin írsk stemning í henni út alla myndina sem gefur góðan heildarsvip.
Örfá söguleg mistök eru samkvæmt sagnfræðingum en hægt er að réttlæta þau flest.

Michael Collins var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir bestu kvikmyndun og bestu frumsömdu tónlist.

Ég var algjörlega heilluð af myndinni og þá sérstaklega leik Liam Neeson. Myndin er í lengri kantinum, eða 133 mínútur, en þó tók ég ekkert eftir því og var einbeitt að atburðarásinni allan tímann. Mæli með Michael Collins fyrir alla sem hafa áhuga á sögulegum myndum!

Eamon de Valera varð síðar forseti írska lýðveldisins og sagði:
"It is in my considered opinion that in the fullness of time history will record the greatness of Michael Collins... and it will be recorded at my expense."

Saturday, April 10, 2010

The Bucket List (2007)

Mig hefur alltaf langað að sjá þessa mynd og ég lét loksins verða af því um daginn. The Bucket List fjallar um vélvirkjann Carter Chambers (Morgan Freeman) og milljónamæringinn Edward Cole (Jack Nicholson). Þeir eru mjög ólíkir, Carter Chambers hefur verið hamingjusamlega giftur konu sinni, Virginia, í fjöldan alla ára og á með henni þrjú börn. Edward Cole er bitur, margfráskilinn maður sem á marga spítala. Hann á einnig dóttur sem hann hefur misst allt samband við. Cole hefur þá stefnu varðandi spítala sína að allar stofur séu tveggja manna. Þegar hann neyðist síðan til að verja tíma á einum af spítölum sínum verður hann því að deila herbergi með Carter Chambers. Þessir tveir menn eru gríðarlega ólíkir en eitt eiga þeir þó sameiginlegt, þeir eru báðir að deyja úr krabbameini. Carter og Edward verða nánari þegar á líður og þegar Edward finnur “bucket lista” Carters, sem er listi yfir hluti sem hann vill gera áður en hann deyr, bætir hann við sínum hugmyndum og leggur til að þeir fari í ævintýraferð. Carter og Edward láta slag standa og vinátta þeirra verður einstök.

Leikstjóri The Bucket List er Rob Reiner, sem leikstýrði einnig m.a. When Harry Met Sally (1989) og Stand by Me (1986).

Það segir sig eiginlega sjálft að kvikmynd sem inniheldur Jack Nicholson og Morgan Freeman er góð. “Chemistry-ið” á milli þeirra er ótrúlegt og kenna þeir hvor öðrum mikilvæga hluti um lífið á þessum endaspretti þeirra. Samtölin eru kaldhæðin og öll samskipti þeirra tveggja eru bæði hnyttin og hrífandi. Þessi hlutverk eru mjög týpísk fyrir bæði Nicholson og Freeman en það skiptir ekki öllu því þeir eru einfaldlega stórkostlegir, þá sérstaklega saman.

Handritið er einstaklega vel skrifað. Það er ekki oft sem ég tek eftir svoleiðis en ég held að það fari ekki fram hjá neinum. Atburðarásin flæðir vel og er engan veginn þvinguð. The Bucket List er ótrúlega fyndin og krúttleg en á sama tíma er hún sorgleg og full af lexíum um verðmæti lífsins. Handritið er skrifað af Justin Zackham.

Ég hafði ótrúlega gaman af The Bucket List og felldi mörg tár yfir henni. Tveir ólíkir gamlir menn tengjast traustum vinaböndum og finna fyrir ómældri væntumþykju í garð hvors annars. Er til eitthvað krúttlegra?
Þegar myndin endaði leið mér vel, þrátt fyrir að nokkur tár láku enn. Ég er algjör sökker fyrir kvikmyndum með fallegan boðskap þannig að kannski er það bara ég.... en mér fannst The Bucket List alveg frábær.

Thursday, April 8, 2010

EGYPT – Rediscovering a lost world


Þáttaserían Egypt var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni BBC árið 2005. Ég hef safnað að mér fjölmörgum heimildamyndum um forn-Egyptaland í gegnum tíðina, eða hátt í 30, en þessir þættir eru mínir allra uppáhalds. Þeir eru leiknir heimildaþættir um mikilvæga fornleifafundi í Egyptaland og segja frá þrem merkum mönnum: Howard Carter, Giovanni Belzoni og Jean-François Champollion. Þátturinn sýnir okkur einnig “flashback” í heim forn-Egypta og verður til mjög skemmtileg blanda af fornum tímum þegar þessar merku minjar voru byggðar og svo þúsundum árum seinna þegar þær voru uppgvötaðar af “nútímamanninum”.

Þáttunum er skipt í þrjá hluta og í hverjum hluta eru 2 þættir.

Fyrsti hluti fjallar um merku uppgvötun Howards Carter á grafhýsi Tutankhamun í Dal Konunganna á vesturbakka Nílar, móti borginni Lúxor. Við fylgjum atburðarásinni sem leiðir að fundinum. Carter uppgvötar grafhýsi Hatshepsut en það hafði þegar verið tæmt af grafarræningjum og hann þráir að finna ósnert grafhýsi. Nafn Tutankhamuns kemur fyrir á einum forngrip og er nefndur sem ungur faraó, en hann var aðeins 8 ára þegar hann tók við af föður sínum. Með styrk frá Lord Carnarvon hefur Carter uppgröftinn 1914 en þeir neyðast til að hætta stuttu seinna vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar. Uppgröfturinn hefst aftur að loknu stríði en lofar ekki góðu þar til hvílistaður Tutankhamuns finnst loks 1922, falinn undir öðru grafhýsi í Dal konunganna. Grafhýsi Tutankhamuns er það eina sem fundist hefur ósnert og sýnir okkur þau undur og stórmerki sem leyndust eitt sinn á þessum slóðum. Tutankhamun gerði ekkert merkilegt á sinni tíð sem faraó en hann er víðfrægur vegna þessarar merku uppgvötunar. Ef grafhýsi þessa unga faraós var svona glæsilegt er erfitt að ímynda sér hvaða gersemar grafhýsi Ramsesar hins mikla innihélt.
Leikurinn er frábær og ég hafði mjög gaman af að fylgjast með Howard Carter í leit sinni og fá að vera “með”. Stuart Graham leikur Carter og Julian Wadham fer með hlutverk Carnarvons.


Annar hluti segir frá ítalska verkfræðingnum Giovanni Belzoni, sem er einnig “strongman” í sirkús og er þekkur sem “The Great Belzoni”. Hann er ráðinn af The British Museum til að heimta risavaxna “Höfuð Memnons” sem hluti af styttu af Ramsesi II. Hann reynir að finna leið til að færa höfuðið og er mjög skemmtilegt að fylgjast með því. Belzoni er mjög sérstakur karakter að því leyti að hann er ekki fornleifafræðingur og frekar fyndin týpa. Á leið sinni á Níl fer Belzoni suður til Abu Simbel þar sem hann uppgvötar hof næstum grafið í sandinn. Eftir uppgröftinn finnur hann tvo hof sem Ramses II byggði, eitt fyrir heittelskuðu eiginkonu hans Nefertari (“for whom the sun doth shine”) og annað til að minnast hersigurs hans við Kadesh. Hofin við Abu Simbel eru án efa það fallegasta sem ég hef séð! Belzoni uppgvötar einnig grafhýsi Seti I sem var faðir Ramsesar II. Ótrúlegt hvernig merku uppgvötanir Belzoni voru allar tengdar Ramses. Okkur eru einnig sýnd brot aftur í forntíma og saga Ramsesar II hins merka er sögð. Án efa uppáhalds hlutinn minn. Ég hef alltaf haft sérstakan áhuga á Ramses II og öllu sem tengist honum. Það er bráðskemmtilegt að fylgja ævintýramanninum Belzoni og upplifa með honum þessa ólýsanlegu gimsteina. Giovanni Belzoni er leikinn af Matthew Kelly.

Þriðji hluti fjallar um Frakkann, Jean-François Champollion, sem hefur brennandi áhuga á ýmsum tungumálum og þá sérstaklega heilla leyndardómar forn-egypska myndmálsins hann. Hann gerir tilraun til að þýða letrið á Rosetta steininum, en á honum er sami texti skrifaður á forn-grísku, almennri egypsku og forn-egypsku myndmáli. En Bretar höfðu stolið steininum frá Frökkum 1801 og vill Champollion hefna þeirra með því að ráða myndmálið. Mjög skemmtilegt er að fylgjast með Champollion, í kappi við aðra fræðimenn, ráða þessa leyndardóma og eru aðferðirnar sem notaðar eru alveg ótrúlegar. Kaþólska kirkjan hræðist þó forn-egypska myndmálið og óttast að það muni grafa undan trúarkenningum þeirra. Yfirmenn kirkjunnar reyna því að stöðva Champollion. Að leysa ráðgátuna um þetta forna tungumál verður ákveðin árátta fyrir hann og með því að grandskoða forna gripi kemst hann á slóðina. Champollion ferðast til Egyptalands og lætur reyna á þekkingu sína. Hann kemst að því hverjir hvíldu í hinum ýmsu grafhýsum og náði að lesa það sem stóð í hofum forn-Egypta. Þessi uppgvötun er stórmerkileg því Champollion komst í fyrsta skipti að hvert trúarkerfi forn-Egypta var og hvernig þeir háttuðu sínu daglega lífi.
Elliott Cowan fer með hlutverk Jean-Fran
çois Champollion, en hann leik m.a. Ptolemy í hörmunginni sem var Alexander (2004) og með mínum manni David Suchet í Poirot myndinni Taken at the Flood.

Þættirnir eru í heildina litið vel leiknir og einstaklega vel gerðir. Þeir skapa mjög skemmtilegt sjónarhorn á uppgvötanir tengdar Egyptalandi og hafði ég ótrúlega gaman af því. Þættirnir voru teknir upp á hrífandi stöðum og draga áhorfandann inn í söguna. Tölvutækni gerði þeim einnig kleift að skapa myndir sem sýndu hofin og grafhýsin eins og þau voru hugsanlega á tímum faraóanna. Skemmtilegt er að sjá “flashback” aftur í forna tíma og skapar það mikla stemningu.
Mæli hiklaust með þáttunum fyrir alla sem telja sig hafa áhuga!

Framleiðandinn Phil Doling hafði þetta að segja:
Being the first UK TV company to attempt such a project in the most amazing historical sights was very exhilarating, and to be able to return them - with additional sets and some computer imagery - to how they were during the time of the Pharaohs was incredible.”

Og já, ég setti tvær persónulegar myndir til að krydda aðeins upp á bloggið!


Wednesday, April 7, 2010

Langt ritgerðarblogg um Poirot myndirnar

Mig langar dálítið að skrifa um Poirot sjónvarpsmyndirnar þar sem ég var svo lukkuleg að fá allt safnið á spottprís! Eða þú veist, miðað við að þetta eru hvorki meira né minna en 60 myndir enn sem komið er! Ég er alveg “hooked” á þeim, en vegna stúdentspróflesturs gerði ég hlé á áhorfi mínu en náði þó allnokkrum í leiðinda veikindum og hef auk þess séð margar á mínum yngri árum.

Í þessum sjónvarpsmyndum er það David Suchet sem leikur hlutverk Hercule Poirot og gerir það svo snilldarlega. Ófáir leikarar hafa tekið hlutverkið að sér áður og má þar nefna Peter Ustinov. En David Suchet hefur helgað sig hlutverkinu fullkomlega og tileinkað sér hvert einasta smáatriði við þennan fræga “detective” úr sögum Agöthu Christie. Hann ráðfærði sig meira að segja við dóttur Christie. Barnabarn hennar sagði einnig að honum þætti leiðinglegt að Agatha Christie hafi aldrei fengið að sjá Shuchet í hlutverkinu því hann næði fullkomlega kjarna Poirot.

Hercule Poirot er algjör fullkomnunarsinni og vekur oft upp vægan pirring hjá áhorfanda, en þó á fyndinn hátt. Hann mjög athugull og oftast eru það hinar minnstu vísbendingar sem koma honum á sporið í leit sinni að morðingjanum. Hann er mjög gáfaður og skín það í gegn í framkomu hans og talmáli en hann er þó óttalegt snobb. Hugsun og aðgerðir Poirot eru þrungnar nákvæmni sem jaðrar við áráttu. Því er mjög erfitt fyrir áhorfandann að leysa ráðgátuna og er það því mun ánægjulegra í lokin þegar Poirot stendur andspænis hinum grunuðu og segir niðurstöðu sína.

Svona lýsir gamall vinur Poirot, Captain Arthur Hastings, honum í bókunum:
He was hardly more than five feet four inches but carried himself with great dignity. His head was exactly the shape of an egg, and he always perched it a little on one side. His moustache was very stiff and military. Even if everything on his face was covered, the tips of moustache and the pink-tipped nose would be visible. The neatness of his attire was almost incredible; I believe a speck of dust would have caused him more pain than a bullet wound. Yet this quaint dandified little man who, I was sorry to see, now limped badly, had been in his time one of the most celebrated members of the Belgian police."

Athyglisvert er að Agötha Christie fór að líka mjög illa við Poirot þegar leið á skrifin en hélt þó áfram vegna gríðarlegra vinsælda hans og eru vinsældir sjónvarpsmyndanna engu síðri. Frumsýningar myndanna í bresku sjónvarpi hafa náð allt að 7,4 milljón áhorfendum.
En Agatha Christie varð mjög þreytt á Poirot þegar á leið líkt og Arthur Conan Doyle með Sherlock Holmes, en hún drap hann þó ekki.

Margar persónur koma oft fyrir í myndunum og af þeim er Ariadne Oliver, leikin af Zoë Wanamaker í miklu uppáhaldi hjá mér . Í karaktersköpun hennar hefur Christie endurspeglað sjálfa sig á mjög skemmtilegan hátt. Ariadne Oliver er rithöfundur sem er þekkt fyrir að skrifa skáldsögur um detective-inn Sven Hjerson. Hún hitti Poirot fyrst í myndinni “Cards on the Table” og hefur ekki látið hann í friði síðan. Líkt og Christie er henni frekar illa við karakterinn sem hún hefur skapað. Zoë Wanamaker leikur Oliver stórkostlega og er eins og ferskur andblær af kímni inn í myndirnar.

Aðrir karakterar sem koma fyrir í mörgum af myndunum eru Captain Hastings, Miss Lemon og Chief Inspector Japp.

Uppáhalds Poirot myndir mínar eru fjölmargar en sem dæmi má taka:


Five Little Pigs (2003)

Lucy Crale kemur til Hercule Poirot 14 árum eftir hengingu móður hennar, Caroline Crale, fyrir morðið á föður hennar, Amyas Crale. Hún er sannfærð um að móðir hennar hafi verið saklaus og biður Poirot að rannsaka málið til að hugsanlega hreinsa nafn hennar. Hann tekur sig til og ræðir við allar þær fimm manneskjur sem voru viðstaddar morðið á Amyas Crale: besti vinur hans Philip Blake, Elsa Greer sem var að sitja fyrir á málverki Amyas, Meredith bróðir Amyas, Angela hálfsystir Caroline og Miss Williams kennslukonan á heimilinu.
Caroline Crale átti að hafa eitrað fyrir manni sínum með eitri sem hún stal frá bróður hans Meredith. Amyas Crale var frekar mikill skíthæll og hélt við fyrirsætuna Elsu Greer beint undir nefinu á konunni sinni og átti það að hafa verið ástæða Caroline til morðsins. Eftir vandleg viðtöl við þessar fimm manneskjur (Five Little Pigs) kemst Poirot að niðurstöðu.
Hugsanlega mín allra uppáhalds Poirot mynd. Það sem er einstakt við hana er að leikararnir eru framúrskarandi í hlutverkum sínum. Þeir vekja upp tilfinningar hjá áhorfandanum og mér leið hreinlega eins og ég væri með í myndinni.

David Suchet stendur sig að sjálfsögðu alltaf vel en Rachael Stirling í hlutverki Caroline Crale er stórkostleg, ég algjörlega dýrkaði hana. Ótrúlega falleg og “elegant” en samt sterk kjarnakona. Amyas Crale er óþolandi og nær Aidan Gillen honum fullkomlega. Hann fær enga samúð hjá áhorfandanum sem fórnarlambið heldur liggur samúðin algjörlega hjá Caroline Crale.

Æðisleg mynd og mjög gaman að sjá hvernig allt spilast!


Sad Cypress (2003)

Elinor Carlisle hefur verið dæmd fyrir morðið á frænku sinni Mary Gerrard. Unnusti Elinor er Roddy Welman og hún kom að honum að kyssa Mary. Einnig hafði hún ástæðu til að trúa að Mary ætlaði sér að fá arfinn frá dauðvona frænku þeirra og var mjög upptekin við að koma sér í náðina hjá fjölskyldunni. Af þessum ástæðum líkaði Elinor skiljanlega illa við frænku sína og hafði ástæðu til að drepa hana. Síðar er hún dæmd fyrir morðið en þar byrjar myndin. Peter Lord, fjölskyldulæknirinn, er þó ekki sannfærður að Elinor hafi framið morðið og hefur samband við gamla vin sinn Hercule Poirot til að rannsaka málið.
Það sem mér fannst mjög heillandi við myndina að hún byrjar við réttarhald Elinor Carlisle þar sem hún er dæmd til dauða. Nú etjar Poirot kappi við tímann til að komast til botns í málinu áður en dómnum er framfylgt, sem gerir myndina mjög spennandi.
Ég ætla ekki að segja meira til að spilla ekki endinum. Leikararnir eru flestir frábærir, þar má helst nefna David Suchet að sjálfsögðu þó svo að hann virðist oft þreyttur en einnig Elizabeth Dermot Walsh sem leikur Elinor Carlisle og er hreinlega framúrskarandi.

Sjónvarpsmyndirnar um Poirot eiga fastan stað í hjarta mínu og kvíð ég einfaldlega fyrir því þegar ég hef horft á þær allar. Þó bíð ég spennt eftir þeim myndum sem verða frumsýndar á þessu ári, þar á meðal The Orient Express!

Saturday, January 30, 2010

Bloody Sunday (2002)


Á þessum degi fyrir 38 árum síðan voru 27 óbreyttir borgarar í Derry á Norður-Írland skotnir af breskum hermönnum, 13 af þeim létust strax og 1 lést af skotsárum mánuðum síðar. Í sögu Írlands er þessi dagur kallaður Bloody Sunday. Í tilefni dagsins var sýnd myndin Bloody Sunday á breskri sjónvarpsstöð og ég ákvað að horfa. Myndin sýnir atburði dagsins 30. janúar 1972 frá sjónarhorni stjórnmálamannsins Ivan Cooper (leikinn af James Nesbitt). Ivan Cooper skipuleggur friðsæla mótmælagöngu til að krefjast réttinda fyrir írskra borgara, hann skipuleggur gönguna og safnar saman fólki þrátt fyrir að breskir hermenn lýstu því yfir að slíkar göngur séu hér með bannaðar. Cooper heldur því fram að það séu almenn mannréttindi að fá að berjast friðsamlega fyrir sínum málstað og hann hvetur íbúa Derry til að sína samstöðu. Mikil áhersla er lögð á að mótmælagangan verði friðsamleg og eru IRA samtökin beðin um að taka ekki þátt með sínum venjulegu látum. Cooper vill sýna að ofbeldi mun ekki færa þeim aukin réttindi. Breskir hermenn gera allt í sínu valdi til að stoppa gönguna og setja upp hindranir á götum borgarinnar. Þegar nokkrir ungir menn skiljast frá fjöldanum og byrja með læti bregðast hermennirnir illa við. Ungu Írarnir kasta steinum og hrópa móðganir, í fyrstu eru tveir óvopnaðir drengir skotnir til bana. Að sjálfsögðu veldur þetta mikilli reiði meðal mótmælenda og gangan fer úr böndunum. Hins vegar var aldrei sýnt fram á að bresku hermönnunum hafi verið ógnað af írska múgnum en þrátt fyrir það voru 13 menn skotnir til bana.
Myndin virðist ef til vill vera hlutdræg af hálfu Íra en að mínu mati sýnir hún báðar hliðar eins hlutlaust og mögulegt er. Staðreyndin er einfaldlega sú að allt bendir til þess að aðgerðir breskra hermanna hafi verið hræðilega óþarfar og hafa hreint út verið kallaðar morð. Hermennirnir héldu því fram að mennirnir sem létust hafi verið vopnaðir byssum eða sprengjum, en engin vopn fundust á líkunum.
Bloody Sunday er tekin upp í heimildarmyndastíl sem gerir hana raunvörulega og því mun átakanlegri. Hún er laus við alla væmni og persónurnar eru trúverðulegar. Áhorfandanum líður eins og hann sé í miðju átakanna og er oft mjög erfitt að horfa upp á atburði sunnudagsins. Myndin dregur upp sanna mynd af Norður-Írlandi á þessum tíma og erfiðleikunum sem fólkið þar hefur þurft að fást við.
Leikararnir eru alveg hreint magnaðir, en hefði ég ekki haft mikla þjálfun í skilningi írsks hreims ætti ég ef til vill erfitt með að skilja sum samtölin. James Nesbitt er framúrskarandi sem Ivan Cooper. Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum manni, hann einfaldlega 'blew me away'. Vonbrigði hans í enda myndarinnar eru svo raunvöruleg. Friðsæla mótmælagangan hans endaði í blóðbaði og honum finnst hann vera ábyrgur. Orð hans sem Ivan Cooper í enda myndarinnar eru svo sannarlega sönn því eftir Bloody Sunday hafa IRA samtökin aldrei skort stuðning, þetta kvöld skráðu óteljandi ungir menn sig í ofbeldissamtökin og geta breskir hermenn sér um kennt.
"I just want to say this to the British Government... You know what you've just done, don't you? You've destroyed the civil rights movement, and you've given the IRA the biggest victory it will ever have. All over this city tonight, young men... boys will be joining the IRA, and you will reap a whirlwind."

Bloody Sunday vann ótal verðlaun og var vel tekin af gagnrýnendum. Myndin vann meðal annars "Audience Award" á Sundance kvikmyndahátíðinni og "Golden Berlin Bear" á alþjóðlegukvikmyndahátíðinni í Berlín.


Notorious (1946)



Ég missti af þessari í tíma svo ég fann hana á netinu og horfði.
Notorious er leikstýrð af Alfred Hitchcock og í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Ingrid Bergman. Bergman leikur Alicia Huberman, faðir hennar er settur í fangelsi fyrir að vera njósnari nasista og þar fremur hann sjálfsmorð. Alicia er boðið tækifæri til að bæta upp fyrir gjörðir föður hennar og hreinsa sig af skömm fjölskyldunafnsins með því að komast í innsta hring nasistavini föður hennar í Rio de Janeiro og njósna fyrir föðurland sitt. Henni er boðið þetta af útsendara Bandarísku stjórnarinnar, T.R. Devlin sem hún verður síðar ástfangin af.
Ég hafði mjög gaman af Notorious og finnst hún án efa vera með betri myndum sem ég hef séð. Ingrid Bergman er einfaldlega stórkostleg kona, það eru varla til orð. Hún leikur hlutverkið af þvílíkri snilld. Alicia Huberman þráir að losna undan þeirri skömm sem faðir hennar hefur þröngvað á hana. Þegar henni er gefið tækifærið neyðist hún til að skilja við glæfralegu fortíð sína og hjálpa föðurlandinu með því að gerast eiginkona nasista í Brasilíu. En Alicia verður hopelessly ástfangin ef útsendaranum T.R. Devlin og fer ekki leynt með það gagnvart honum. Leikur Bergman er svo raunvörulegur og gallalaus og Cary Grant er ekkert síðri í hlutverki Devlin. Hann er kaldur og reynir að hylja tilfinningar sínar til Alicia. En Grant tekst stórkostlega að sýna vaxandi ást Devlin lúmskt með augnagotum hér og þar, mjög gaman að fylgjast með því. "Chemistry-ið" á milli Bergman og Grant er ótrúlegt, spennan á milli þeirra vex út alla myndina og áhorfandinn þráir ekkert heitar en að þau nái saman. Cary Grant er þvílíkur karlmaður. Þeir gera þá ekki svona lengur...

Endir myndarinnar veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum, eftir að nasista-eiginmaður Aliciu, Alex Sebastian, eitrar fyrir henni að ráði móður sinnar kemur Devlin og bjargar henni. Loksins játar hann ást sína og ber hana út úr húsinu. Þau skilja eftir Alex Sebastian, og þegar hann gengur upp tröppurnar og útidyrahurðin lokast veit áhorfandinn upp á hár hvaða örlög bíða hans, og auðvitað á hann þau fyllilega skilið.
Frábær mynd. Eina sem mér fannst leiðinlegt er að fallegu litir borgarinnar Rio de Janeiro sáust ekki. Mér fannst sérstaklega erfitt þegar Alicia og Devlin standa á svölunum með hafið, ströndina og himininn í bakgrunn að sjá ekki stórkostlegu litina sem eflaust fylgdu því. En auðvitað var lítið hægt að gera í því! Annars var ég mjög sátt.

Couples Retreat (2009)


Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Couples Retreat. Vince Vaughn er án efa einn af mínum uppáhalds gamanleikurum en þessi mynd er einfaldlega hræðileg. Vaughn hefur reyndar sín móment, annars hefði ég gefist upp á myndinni vandræðalega snemma. Malin Akerman er líka fín og "chemistry-ið" á milli hennar og Vaughn er mjög gott. Annars er flest við Couples Retreat slæmt. Grínið feilar oftar en ekki og er frekar sársaukafullt að fylgjast með því.
Í stuttu máli fjallar myndin um fjögur pör sem fara í prógram á hitabeltiseyju til að laga vandamálin í sambandinu. Samtölin eru yfirborðskennd og flestir karakterarnir eru leiðinlegir. Myndin endar síðan á vandræðalega góðan hátt, miðað við erfiðleika hjónanna út mest alla myndina.
Ég verð eiginlega bara niðurdregin á að skrifa um þessa mynd, svo ég læt þetta duga. Vince Vaughn er það eina góða við Couples Retreat. Hann leikur reyndar sama karakter og alltaf, en þrátt fyrir það finnst mér hann skemmtilegur.

Thursday, January 28, 2010

Sherlock Holmes (2009)


Ætli ég nýti ekki veikindaleyfið til að blogga aðeins.
Skellti mér á Sherlock Holmes um daginn, salurinn var pakkfullur og ég verð að segja að það er langt síðan ég hef upplifað svona frábæra bíóstemningu. Myndin kom mér skemmtilega á óvart. Satt að segja var sjóðheitur Robert Downey Jr. það eina sem ég var viss um að sjá, svo var þetta bara frábær afþreying.
Varla þarf að nefna að sögurnar um Sherlock Holmes eftir Arthur Conan Doyle eru tímalaus snilld og því var ákveðið "challenge" fyrir Guy Ritchie og félaga að gera góða mynd sem endurspeglaði ekki of mikið af Hollywood. Persónulega fannst mér þeim takast það. Vissulega er myndin frekar commercial en hún er samt frumleg á ákveðinn hátt og hefur mikinn sjarma. Það er ýktur ævintýrafílingur í henni sem höfðar einstaklega mikið til mín. Búningarnir, sviðsmyndin, myndatakan og tónlistin vinna saman að því að skapa einstaka stemningu.
London á þessum tíma er sýnd í drungalegu ljósi og daufum litum. Mér fannst söguþráður myndarinnar einnig mjög áhugaverður. Vegna ævintýrafílingsins átti ég reyndar stundum erfitt með að átta mig á hvort þeir ætluðu að fara "rökréttu eða yfirnáttúrulegu leiðina". En það skýrist síðan allt.
Robert Downey Jr. er frábær sem Sherlock Holmes. Hann nær svo ótrúlega vel hroka og mikilmennsku karaktersins. Auk þess leikur hann hlutverkið með prakkaraglotti og sýnir vel öfgafulla ástríðu Holmes þegar kemur að vinnu hans.
Jude Law kom mér rosalega á óvart sem Dr. Watson. Hann og Downey eru frábærir saman og ná vel einstakri vináttu Holmes og Watson. Rachel McAdams leikur einnig skemmtilegan karakter.
Kannski er ég einföld en ég hef alla vega ekkert slæmt að segja um Sherlock Holmes.