Saturday, April 10, 2010

The Bucket List (2007)

Mig hefur alltaf langað að sjá þessa mynd og ég lét loksins verða af því um daginn. The Bucket List fjallar um vélvirkjann Carter Chambers (Morgan Freeman) og milljónamæringinn Edward Cole (Jack Nicholson). Þeir eru mjög ólíkir, Carter Chambers hefur verið hamingjusamlega giftur konu sinni, Virginia, í fjöldan alla ára og á með henni þrjú börn. Edward Cole er bitur, margfráskilinn maður sem á marga spítala. Hann á einnig dóttur sem hann hefur misst allt samband við. Cole hefur þá stefnu varðandi spítala sína að allar stofur séu tveggja manna. Þegar hann neyðist síðan til að verja tíma á einum af spítölum sínum verður hann því að deila herbergi með Carter Chambers. Þessir tveir menn eru gríðarlega ólíkir en eitt eiga þeir þó sameiginlegt, þeir eru báðir að deyja úr krabbameini. Carter og Edward verða nánari þegar á líður og þegar Edward finnur “bucket lista” Carters, sem er listi yfir hluti sem hann vill gera áður en hann deyr, bætir hann við sínum hugmyndum og leggur til að þeir fari í ævintýraferð. Carter og Edward láta slag standa og vinátta þeirra verður einstök.

Leikstjóri The Bucket List er Rob Reiner, sem leikstýrði einnig m.a. When Harry Met Sally (1989) og Stand by Me (1986).

Það segir sig eiginlega sjálft að kvikmynd sem inniheldur Jack Nicholson og Morgan Freeman er góð. “Chemistry-ið” á milli þeirra er ótrúlegt og kenna þeir hvor öðrum mikilvæga hluti um lífið á þessum endaspretti þeirra. Samtölin eru kaldhæðin og öll samskipti þeirra tveggja eru bæði hnyttin og hrífandi. Þessi hlutverk eru mjög týpísk fyrir bæði Nicholson og Freeman en það skiptir ekki öllu því þeir eru einfaldlega stórkostlegir, þá sérstaklega saman.

Handritið er einstaklega vel skrifað. Það er ekki oft sem ég tek eftir svoleiðis en ég held að það fari ekki fram hjá neinum. Atburðarásin flæðir vel og er engan veginn þvinguð. The Bucket List er ótrúlega fyndin og krúttleg en á sama tíma er hún sorgleg og full af lexíum um verðmæti lífsins. Handritið er skrifað af Justin Zackham.

Ég hafði ótrúlega gaman af The Bucket List og felldi mörg tár yfir henni. Tveir ólíkir gamlir menn tengjast traustum vinaböndum og finna fyrir ómældri væntumþykju í garð hvors annars. Er til eitthvað krúttlegra?
Þegar myndin endaði leið mér vel, þrátt fyrir að nokkur tár láku enn. Ég er algjör sökker fyrir kvikmyndum með fallegan boðskap þannig að kannski er það bara ég.... en mér fannst The Bucket List alveg frábær.

1 comment:

  1. Hljómar nokkuð skemmtilega þótt grunnhugmyndin virki sem svolítill "downer". Maður getur ímyndað sér að það hafi verið erfitt að fá fjármagn til þess að gera þessa mynd í Hollywood...

    6 stig.

    ReplyDelete