Monday, April 12, 2010

Umsögn

Þegar ég valdi kvikmyndagerð fyrir ári síðan var ég ekki viss við hverju ég átti að búast. Fagið og verkefnin reyndust erfiðari en ég bjóst við en oftast hafði ég gaman af. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna mætti ég þó lítið í skólann og missti af stórum hluta námskeiðsins. Því er ég ef til vill ekki hæf til að leggja dóm á það, en ég ætla alla vega að lýsa upplifun minni.

Skemmtilegasti hlutinn var að mínu mati að klippa myndir og læra á það meistaraverk sem Final Cut Pro er. Ég hef alltaf haft gaman af því að klippa og var það að hluta til ástæða þess að ég valdi fagið. Því var ég mjög ánægð með þann hluta þó að stuttmyndaverkefnin hafi verið tímafrek og krefjandi. Að klippa myndirnar var einnig það sem ég lærði mest af og ég er glöð með þá reynslu.

Ég var einnig ánægð með fyrirlestrana og fannst gaman að vinna þá. Er líka mjög fegin að handritamappan var haustannarverkefni vegna annríkis þessa stundina.
Mér fannst passlegt að hafa þrjár stuttmyndir og held að fjórar hefði verið of mikið. Það er mikil vinna og tími sem fer í gerð þeirra.

Mér fannst bloggið krefjandi hluti námskeiðsins að því leyti að það gleymdist einhvern veginn alltaf og það var erfitt að setjast niður og skrifa. En þó viðurkenni ég að þegar ég kom mér að verki fannst mér gaman að blogga, já ég sagði það.
Eitt sem ég er ánægðust með er einmitt að ég horfi mun gagnrýnari augum á kvikmyndir og tek eftir hlutum sem ég pældi aldrei í áður. Það kann ég rosalega mikið að meta.

Því miður missti ég af flestum myndunum sem voru sýndar í vetur og er svekkt með það, sérstaklega finnst mér það erfitt því þær eru til prófs. Þó er það kannski óhjákvæmilegt.

Í heildina litið er ég ánægð með fagið og hefði verið skemmtilegt að geta upplifað meira af því. Ég horfi allt öðrum augum á kvikmyndir og starf kvikmyndagerðafólks og er það einmitt það sem ég vonaðist til að fá út úr námskeiðinu. Svo ég vil bara þakka þér fyrir veturinn!

P.S. Nýtt blogg fyrir neðan.

1 comment: