Deliver Us from Evil er leikstýrð af Amy Berg og er heimildarmynd um kaþólska prestinn, Oliver O’Grady, sem misnotaði og nauðgaði fjölda barna í starfi sínu sem prestur í Californíu frá árinu 1973. Amy Berg tekur viðtal við O’Grady og orð geta ekki lýst hversu hryllilegt er að hlusta á sextugan mann lýsa gjörðum sínum og hvernig hann misnotaði traust sóknarbarna sinna. Hann talar um að þetta sé hreinskilin játning hans svo hann geti hlotið fyrirgefningu. Hann hlýtur að vera virkilega truflaður ef hann heldur að hann eigi fyrirgefningu skilið. Hvernig O’Grady talar “casually” um hvernig hann misnotaði börn, það yngsta aðeins 9 mánaða. Hann byrjaði meira að segja “samband” með konu til að komast nær ungum syni hennar og misnota hann. Mér varð flökurt á að horfa á þennan mann, ég get ekki ímyndað mér hvernig Berg hlýtur að hafa liðið í návist hans.
Amy Berg talar einnig við nokkur fórnarlömb O’Grady og fjölskyldur þeirra. Það veitir manni mikla innsýn í sársaukann sem þau hafa gengið í gegnum og upplifa enn um þrjátíu árum síðar. Að sjá fullorðinn mann skæla vegna þess sem dóttir hans hefur mátt þola brýtur einfaldlega í manni hjartað. Þetta fólk var svikið af manni sem það treysti og kirkjunni þeirra. Þessi svik skildu eftir sig djúp sár á sálum þeirra.
Það mikilvægasta við Deliver Us from Evil er að hún afhjúpar valdagræðgina og yfirhylminguna meðal valdamanna kaþólsku kirkjunnar. Sannanir sýna að biskupar í Los Angeles vissu alveg frá byrjun af misnotkun Oliver O’Grady á börnum og hylmdu skipulega yfir því. Þeir fluttu hann aðeins í hvern smábæinn á eftir öðrum og þóttust ekkert vita. Þeir borguðu fjölskyldum gegn því að lögreglan yrði ekki látin vita og þeir lofuðu að O’Grady hefði engin tengsl við börn aftur. En aldrei stóðst það. Amy Berg sýnir okkur vitnisburði biskupa og cardinála og hvernig þeir forðast spurningar og hreinlega ljúga. Þessir menn hugsa aðeins um sinn eigin frama innan kaþólsku kirkjunnar og gera allt til að vernda orðspor sín. Samkvæmt trú þeirra eru þeir, sem hátt settir menn innan kirkjunnar, mikilvægari en börnin sem hafa hlotið skaða af yfirhylmingu og svikum þeirra. Þeim fannst “allt í lagi” þegar stúlkubörn eru misnotuð því það er alla vega ekki samkynhneigt. En þegar ungir drengir voru misnotaðir sögðu biskupar og yfirmenn kirkjunnar að þeir hefðu leyst vandamálið með því að fjarlægja samkynhneigða menn úr kirkjunni. Hversu sjúk hugsun...
Berg ræðir við sálfræðinga, guðfræðinga, aðgerðasinna og lögfræðinga um misnotkun kaþólskra presta á börnum og yfirhylmingu kirkjunnar. Mjög áhugavert er að heyra fræðimenn tala um vandamálið. Viðhorf kaþólsku kirkjunnar á kynlífi er svo óheilbrigt og einfaldlega ekki mannlegt svo það leiðir af sér alls kyns vandamál. Tölur sýna að um 10% presta sem hafa útskrifast úr “St. John’s Seminary” á vesturströnd Bandaríkjanna misnoti börn í stöðu þeirra innan kirkjunnar. Yfirmenn kirkjunnar gera ekkert nema hylma yfir þessu og hugsa um sín eigin rassgöt.
Deliver Us from Evil vaktu óhug hjá mér og mér leið hreinlega illa í sálinni. En mikið er ég fegin að það eru einhverjir að vekja athygli á þessum hrylling og á spillingunni innan kaþólsku kirkjunnar. Það er bara að vona að einn dag muni yfirmenn hennar viðurkenna vandamálið og þá geta breytingar og lagfæring hafist. Það verður að segjast að Oliver O’Grady er hugrakkur maður að koma fram og viðurkenna gjörðir sínar en þó hef ég ekkert nema fyrirlitningu á þessum manni. Þegar hann skrifar bréf til fórnarlamba sinna til að bjóða þeim að hitta sig svo hann geti beðist afsökunar, svo horfir hann í myndavélina og segir: “I hope we can all meet again real soon” og blikkar... Ég get svarið það, mér leið líkamlega illa.
Deliver Us from Evil var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu heimildarmynd og vann fjölda annarra verðlaun, meðal annars fyrir bestu heimildarmynd á Los Angeles Film Festival.
Heimildarmyndin er einstaklega vel unnin af Amy Berg og þó að hún taki viðtal við marga kemur hún eða rödd hennar aldrei fram. Myndatakan og klippingin er áhrifamikil og hún tengir viðtölin vel saman með myndum af O’Grady með ungu fórnarlömbunum og vitnisburði biskupa.
Oliver O’Grady var dæmdur til 14 ára fangelsisvistar árið 1993 en losnaði árið 2000. Hann var rekinn úr landi og fór aftur til heimalands síns, Írlands. Nú, árið 2010, er ekki vitað um dvalarstað O’Grady.
Magnað! Ég hafði heyrt um þessa mynd en var búinn að gleyma að hún væri til. Þessi lýsing gerði að verkum að ég er að ná í hana núna (spurning reyndar hvenær ég kemst í að horfa á hana)...
ReplyDeleteMjög góð umfjöllun. 8 stig.