Wednesday, April 14, 2010

Anastasia (1997)


Anastasia frá DreamWorks hefur alltaf verið ein af mínum uppáhalds teiknimyndum og horfði ég á hana svo oft þegar ég var yngri að VHS spólan mín eyðilagðist. Þess vegna var ég yfir mig ánægð þegar ég fann hana á DVD í London á dögunum. Það er skrítin reynsla að horfa á mynd, sem var ein af “æskuástunum”, mörgum áður síðar þegar maður er örlítið vitrari. Það var líka ný upplifun að horfa á hana á ensku en ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Áður fyrr gerði ég mér náttúrulega enga grein fyrir leikaraúrvalinu sem þarna er á ferð: Meg Ryan, John Cusack, Kelsey Grammer, Christopher Lloyd, Hank Azaria, Angela Lansbury ofl.

Teiknimyndin er byggð á þjóðsögunni um að Anastasia, yngsta dóttir seinasta keisara Rússlands Nikulásar II, hafi sloppið þegar Romanov fjölskyldan var aflífuð eftir byltinguna árið 1916. Seiðkarlinn Rasputin, fyrrverandi ráðgjafi keisarans, hét því að hann skyldi ekki hvílast fyrr en Romanov ættin væri þurrkuð út. En ungur drengur hjálpar Anastasiu og ömmu hennar, Dowager keisaraynju, að sleppa. Þær verða þó viðskilja og Anastasia hlýtur þungt högg á höfuðið. Hún missir minnið og endar á munaðarleysingjahæli undir nafninu Anya og með hálsmen frá ömmu sinni sem á stendur “together in Paris”. Þegar Anya verður 18 ára fer hún af munaðarleysingjahælinu og ákveður að komast að uppruna sínum í París. Henni er sagt að maður í gömlu keisarahöllinni geti hugsanlega hjálpað. Þar hittir hún ungan mann að nafni Dimitri og vin hans Vladimir, sem eru svikahrappar. Þeir uppgvöta að Anya er ótrúlega lík keisaradótturinni Anastasiu og ákveða að þjálfa hana, fara með hana til Parísar og segja Dowager keisaraynju að þar sé sonardóttir hennar á ferð. Ef áætlunin heppnast fá þeir að sjálfsögðu verðlaunaféð sem keisaraynjan býður þeim sem finnur barnabarn sitt. En illi Rasputin veit sannleikann um munaðarleysingjann Anyu og gerir allt í sínu valdi til að drepa seinasta meðlim Romanov fjölskyldunnar.

Hér fer ljáir Meg Ryan rödd sína Anastasiu en Kristen Dunst talar fyrir hana þegar hún er yngri. John Cusack leikur Dimitri og er ótrúlega gaman að fylgjast með “love/hate”-sambandi hans og Anastasiu, mjög raunvörulegt fyrir teiknimynd. Angela Lansbury talar snilldarlega fyrir ömmu Anastasiu og gefur myndinni meiri fágun og þokka. Christopher Lloyd (Doc Brown úr Back to the Future!) fer með rödd Rasputin og Hank Azaria fyrir leðurblökuna hans, Bartok. Kelsey Grammer er einnig skemmtilegur sem krúttlegi vinur Dimitri, Vladimir. Mjög skemmtilegt leikaraval.

Myndin er ótrúlega vel gerð og teikningarnar eru oftast alveg stórkostlega fallegar. Ég sakna tvívíða teiknimynda. Hún höfðar vissulega bæði til barna og fullorðinna. Það eina sem mér fannst skrítið á þessum aldri er svakalega ljóti seiðkarlinn í annars eðlilegri sögu, hann er augljóslega fyrir börnin. Litli frændi minn hafði alla vega mjög gaman af honum.

Myndin er leikstýrð af Don Bluth og Gary Goldman. Hún var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna fyrir bestu frumsömdu tónlist og besta frumsamda lag fyrir “Journey to the Past”. Það er einmitt það sem eflaust heillaði mig mest við Anastasiu, tónlistin. Mínar uppáhalds teiknimyndir eru allar með “legendary” tónlist.

Mér finnst Anastasia vera yndisleg mynd þrátt fyrir að hún fari rosalega lauslega með sögulegar staðreyndir, það er alveg hægt að líta framhjá því. Hún inniheldur spennu, húmor og raunvörulegar tilfinningar. Það var rosalega gaman að uppgvöta að ég hef enn jafn gaman af henni u.þ.b. tíu árum síðar.


P.S. Hvað vantar mig mörg stig upp í 10 í bloggeinkunn?

2 comments:

  1. Ágæt færsla. 7 stig.

    Þú ert núna með 54 stig, þ.a. það eru 26 stig í tíuna. Hins vegar ertu búin að bæta bloggeinkunnina heilmikið með bloggi síðustu vikna, og allt útlit fyrir að þú fáir 7-7,5 í lokaeinkunn þar.

    ReplyDelete
  2. Bara 54? Þá er ég eitthvað að misskilja því ég tel 81 stig á vorönn. Kemur haustönnin líka einhvern veginn inn í þetta?

    ReplyDelete