Wednesday, April 7, 2010

Langt ritgerðarblogg um Poirot myndirnar

Mig langar dálítið að skrifa um Poirot sjónvarpsmyndirnar þar sem ég var svo lukkuleg að fá allt safnið á spottprís! Eða þú veist, miðað við að þetta eru hvorki meira né minna en 60 myndir enn sem komið er! Ég er alveg “hooked” á þeim, en vegna stúdentspróflesturs gerði ég hlé á áhorfi mínu en náði þó allnokkrum í leiðinda veikindum og hef auk þess séð margar á mínum yngri árum.

Í þessum sjónvarpsmyndum er það David Suchet sem leikur hlutverk Hercule Poirot og gerir það svo snilldarlega. Ófáir leikarar hafa tekið hlutverkið að sér áður og má þar nefna Peter Ustinov. En David Suchet hefur helgað sig hlutverkinu fullkomlega og tileinkað sér hvert einasta smáatriði við þennan fræga “detective” úr sögum Agöthu Christie. Hann ráðfærði sig meira að segja við dóttur Christie. Barnabarn hennar sagði einnig að honum þætti leiðinglegt að Agatha Christie hafi aldrei fengið að sjá Shuchet í hlutverkinu því hann næði fullkomlega kjarna Poirot.

Hercule Poirot er algjör fullkomnunarsinni og vekur oft upp vægan pirring hjá áhorfanda, en þó á fyndinn hátt. Hann mjög athugull og oftast eru það hinar minnstu vísbendingar sem koma honum á sporið í leit sinni að morðingjanum. Hann er mjög gáfaður og skín það í gegn í framkomu hans og talmáli en hann er þó óttalegt snobb. Hugsun og aðgerðir Poirot eru þrungnar nákvæmni sem jaðrar við áráttu. Því er mjög erfitt fyrir áhorfandann að leysa ráðgátuna og er það því mun ánægjulegra í lokin þegar Poirot stendur andspænis hinum grunuðu og segir niðurstöðu sína.

Svona lýsir gamall vinur Poirot, Captain Arthur Hastings, honum í bókunum:
He was hardly more than five feet four inches but carried himself with great dignity. His head was exactly the shape of an egg, and he always perched it a little on one side. His moustache was very stiff and military. Even if everything on his face was covered, the tips of moustache and the pink-tipped nose would be visible. The neatness of his attire was almost incredible; I believe a speck of dust would have caused him more pain than a bullet wound. Yet this quaint dandified little man who, I was sorry to see, now limped badly, had been in his time one of the most celebrated members of the Belgian police."

Athyglisvert er að Agötha Christie fór að líka mjög illa við Poirot þegar leið á skrifin en hélt þó áfram vegna gríðarlegra vinsælda hans og eru vinsældir sjónvarpsmyndanna engu síðri. Frumsýningar myndanna í bresku sjónvarpi hafa náð allt að 7,4 milljón áhorfendum.
En Agatha Christie varð mjög þreytt á Poirot þegar á leið líkt og Arthur Conan Doyle með Sherlock Holmes, en hún drap hann þó ekki.

Margar persónur koma oft fyrir í myndunum og af þeim er Ariadne Oliver, leikin af Zoë Wanamaker í miklu uppáhaldi hjá mér . Í karaktersköpun hennar hefur Christie endurspeglað sjálfa sig á mjög skemmtilegan hátt. Ariadne Oliver er rithöfundur sem er þekkt fyrir að skrifa skáldsögur um detective-inn Sven Hjerson. Hún hitti Poirot fyrst í myndinni “Cards on the Table” og hefur ekki látið hann í friði síðan. Líkt og Christie er henni frekar illa við karakterinn sem hún hefur skapað. Zoë Wanamaker leikur Oliver stórkostlega og er eins og ferskur andblær af kímni inn í myndirnar.

Aðrir karakterar sem koma fyrir í mörgum af myndunum eru Captain Hastings, Miss Lemon og Chief Inspector Japp.

Uppáhalds Poirot myndir mínar eru fjölmargar en sem dæmi má taka:


Five Little Pigs (2003)

Lucy Crale kemur til Hercule Poirot 14 árum eftir hengingu móður hennar, Caroline Crale, fyrir morðið á föður hennar, Amyas Crale. Hún er sannfærð um að móðir hennar hafi verið saklaus og biður Poirot að rannsaka málið til að hugsanlega hreinsa nafn hennar. Hann tekur sig til og ræðir við allar þær fimm manneskjur sem voru viðstaddar morðið á Amyas Crale: besti vinur hans Philip Blake, Elsa Greer sem var að sitja fyrir á málverki Amyas, Meredith bróðir Amyas, Angela hálfsystir Caroline og Miss Williams kennslukonan á heimilinu.
Caroline Crale átti að hafa eitrað fyrir manni sínum með eitri sem hún stal frá bróður hans Meredith. Amyas Crale var frekar mikill skíthæll og hélt við fyrirsætuna Elsu Greer beint undir nefinu á konunni sinni og átti það að hafa verið ástæða Caroline til morðsins. Eftir vandleg viðtöl við þessar fimm manneskjur (Five Little Pigs) kemst Poirot að niðurstöðu.
Hugsanlega mín allra uppáhalds Poirot mynd. Það sem er einstakt við hana er að leikararnir eru framúrskarandi í hlutverkum sínum. Þeir vekja upp tilfinningar hjá áhorfandanum og mér leið hreinlega eins og ég væri með í myndinni.

David Suchet stendur sig að sjálfsögðu alltaf vel en Rachael Stirling í hlutverki Caroline Crale er stórkostleg, ég algjörlega dýrkaði hana. Ótrúlega falleg og “elegant” en samt sterk kjarnakona. Amyas Crale er óþolandi og nær Aidan Gillen honum fullkomlega. Hann fær enga samúð hjá áhorfandanum sem fórnarlambið heldur liggur samúðin algjörlega hjá Caroline Crale.

Æðisleg mynd og mjög gaman að sjá hvernig allt spilast!


Sad Cypress (2003)

Elinor Carlisle hefur verið dæmd fyrir morðið á frænku sinni Mary Gerrard. Unnusti Elinor er Roddy Welman og hún kom að honum að kyssa Mary. Einnig hafði hún ástæðu til að trúa að Mary ætlaði sér að fá arfinn frá dauðvona frænku þeirra og var mjög upptekin við að koma sér í náðina hjá fjölskyldunni. Af þessum ástæðum líkaði Elinor skiljanlega illa við frænku sína og hafði ástæðu til að drepa hana. Síðar er hún dæmd fyrir morðið en þar byrjar myndin. Peter Lord, fjölskyldulæknirinn, er þó ekki sannfærður að Elinor hafi framið morðið og hefur samband við gamla vin sinn Hercule Poirot til að rannsaka málið.
Það sem mér fannst mjög heillandi við myndina að hún byrjar við réttarhald Elinor Carlisle þar sem hún er dæmd til dauða. Nú etjar Poirot kappi við tímann til að komast til botns í málinu áður en dómnum er framfylgt, sem gerir myndina mjög spennandi.
Ég ætla ekki að segja meira til að spilla ekki endinum. Leikararnir eru flestir frábærir, þar má helst nefna David Suchet að sjálfsögðu þó svo að hann virðist oft þreyttur en einnig Elizabeth Dermot Walsh sem leikur Elinor Carlisle og er hreinlega framúrskarandi.

Sjónvarpsmyndirnar um Poirot eiga fastan stað í hjarta mínu og kvíð ég einfaldlega fyrir því þegar ég hef horft á þær allar. Þó bíð ég spennt eftir þeim myndum sem verða frumsýndar á þessu ári, þar á meðal The Orient Express!

1 comment:

  1. Ég vissi ekki að það væri ennþá verið að gera þessa þætti. Mér þóttu þeir mjög skemmtilegir þegar þeir voru í sjónvarpinu fyrir langa löngu.

    Bráðskemmtileg færsla. 10 stig.

    ReplyDelete