Á þessum degi fyrir 38 árum síðan voru 27 óbreyttir borgarar í Derry á Norður-Írland skotnir af breskum hermönnum, 13 af þeim létust strax og 1 lést af skotsárum mánuðum síðar. Í sögu Írlands er þessi dagur kallaður Bloody Sunday. Í tilefni dagsins var sýnd myndin Bloody Sunday á breskri sjónvarpsstöð og ég ákvað að horfa. Myndin sýnir atburði dagsins 30. janúar 1972 frá sjónarhorni stjórnmálamannsins Ivan Cooper (leikinn af James Nesbitt). Ivan Cooper skipuleggur friðsæla mótmælagöngu til að krefjast réttinda fyrir írskra borgara, hann skipuleggur gönguna og safnar saman fólki þrátt fyrir að breskir hermenn lýstu því yfir að slíkar göngur séu hér með bannaðar. Cooper heldur því fram að það séu almenn mannréttindi að fá að berjast friðsamlega fyrir sínum málstað og hann hvetur íbúa Derry til að sína samstöðu. Mikil áhersla er lögð á að mótmælagangan verði friðsamleg og eru IRA samtökin beðin um að taka ekki þátt með sínum venjulegu látum. Cooper vill sýna að ofbeldi mun ekki færa þeim aukin réttindi. Breskir hermenn gera allt í sínu valdi til að stoppa gönguna og setja upp hindranir á götum borgarinnar. Þegar nokkrir ungir menn skiljast frá fjöldanum og byrja með læti bregðast hermennirnir illa við. Ungu Írarnir kasta steinum og hrópa móðganir, í fyrstu eru tveir óvopnaðir drengir skotnir til bana. Að sjálfsögðu veldur þetta mikilli reiði meðal mótmælenda og gangan fer úr böndunum. Hins vegar var aldrei sýnt fram á að bresku hermönnunum hafi verið ógnað af írska múgnum en þrátt fyrir það voru 13 menn skotnir til bana.
Myndin virðist ef til vill vera hlutdræg af hálfu Íra en að mínu mati sýnir hún báðar hliðar eins hlutlaust og mögulegt er. Staðreyndin er einfaldlega sú að allt bendir til þess að aðgerðir breskra hermanna hafi verið hræðilega óþarfar og hafa hreint út verið kallaðar morð. Hermennirnir héldu því fram að mennirnir sem létust hafi verið vopnaðir byssum eða sprengjum, en engin vopn fundust á líkunum.
Bloody Sunday er tekin upp í heimildarmyndastíl sem gerir hana raunvörulega og því mun átakanlegri. Hún er laus við alla væmni og persónurnar eru trúverðulegar. Áhorfandanum líður eins og hann sé í miðju átakanna og er oft mjög erfitt að horfa upp á atburði sunnudagsins. Myndin dregur upp sanna mynd af Norður-Írlandi á þessum tíma og erfiðleikunum sem fólkið þar hefur þurft að fást við.
Leikararnir eru alveg hreint magnaðir, en hefði ég ekki haft mikla þjálfun í skilningi írsks hreims ætti ég ef til vill erfitt með að skilja sum samtölin. James Nesbitt er framúrskarandi sem Ivan Cooper. Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum manni, hann einfaldlega 'blew me away'. Vonbrigði hans í enda myndarinnar eru svo raunvöruleg. Friðsæla mótmælagangan hans endaði í blóðbaði og honum finnst hann vera ábyrgur. Orð hans sem Ivan Cooper í enda myndarinnar eru svo sannarlega sönn því eftir Bloody Sunday hafa IRA samtökin aldrei skort stuðning, þetta kvöld skráðu óteljandi ungir menn sig í ofbeldissamtökin og geta breskir hermenn sér um kennt.
"I just want to say this to the British Government... You know what you've just done, don't you? You've destroyed the civil rights movement, and you've given the IRA the biggest victory it will ever have. All over this city tonight, young men... boys will be joining the IRA, and you will reap a whirlwind."
Bloody Sunday vann ótal verðlaun og var vel tekin af gagnrýnendum. Myndin vann meðal annars "Audience Award" á Sundance kvikmyndahátíðinni og "Golden Berlin Bear" á alþjóðlegukvikmyndahátíðinni í Berlín.
Ég ætlaði alltaf að sjá þessa, allt frá því að hún var sýnd á einhverri kvikmyndahátíð árið sem hún kom út. En af einhverri undarlegri ástæðu er ég enn ekki búinn að sjá hana, 8 árum síðar. Hún hljómar mjög vel...
ReplyDeleteFlott færsla. 8 stig.