Ætli ég nýti ekki veikindaleyfið til að blogga aðeins.
Skellti mér á Sherlock Holmes um daginn, salurinn var pakkfullur og ég verð að segja að það er langt síðan ég hef upplifað svona frábæra bíóstemningu. Myndin kom mér skemmtilega á óvart. Satt að segja var sjóðheitur Robert Downey Jr. það eina sem ég var viss um að sjá, svo var þetta bara frábær afþreying.
Varla þarf að nefna að sögurnar um Sherlock Holmes eftir Arthur Conan Doyle eru tímalaus snilld og því var ákveðið "challenge" fyrir Guy Ritchie og félaga að gera góða mynd sem endurspeglaði ekki of mikið af Hollywood. Persónulega fannst mér þeim takast það. Vissulega er myndin frekar commercial en hún er samt frumleg á ákveðinn hátt og hefur mikinn sjarma. Það er ýktur ævintýrafílingur í henni sem höfðar einstaklega mikið til mín. Búningarnir, sviðsmyndin, myndatakan og tónlistin vinna saman að því að skapa einstaka stemningu.
London á þessum tíma er sýnd í drungalegu ljósi og daufum litum. Mér fannst söguþráður myndarinnar einnig mjög áhugaverður. Vegna ævintýrafílingsins átti ég reyndar stundum erfitt með að átta mig á hvort þeir ætluðu að fara "rökréttu eða yfirnáttúrulegu leiðina". En það skýrist síðan allt.
Robert Downey Jr. er frábær sem Sherlock Holmes. Hann nær svo ótrúlega vel hroka og mikilmennsku karaktersins. Auk þess leikur hann hlutverkið með prakkaraglotti og sýnir vel öfgafulla ástríðu Holmes þegar kemur að vinnu hans.
Jude Law kom mér rosalega á óvart sem Dr. Watson. Hann og Downey eru frábærir saman og ná vel einstakri vináttu Holmes og Watson. Rachel McAdams leikur einnig skemmtilegan karakter.
Kannski er ég einföld en ég hef alla vega ekkert slæmt að segja um Sherlock Holmes.
Ég lét loks af því verða að kíkja á þessa um síðustu helgi og var bara nokkuð ánægður. Mér fannst þetta fínasta skemmtun, og margt mjög flott (þó svo að ýktar stílfærslur Guy Ritchie geti farið í taugarnar á mér, t.d. í sprengingunni miklu).
ReplyDeleteFín færsla. 5 stig.