Friday, December 4, 2009

The Twilight Saga: New Moon (2009)

Ég fór á frumsýninguna á New Moon með 27 ára systur minni sem er eins og hin versta unglingsstelpa þegar kemur að Twilight bókunum. Það var vægast sagt sársaukafullt að horfa á þessa mynd og ekki gerði troðningur öskrandi stelpna hana skárri. Af einhverjum ástæðum drógst ég ekki inn í þetta æði Twilight bókanna og er því mjög fegin. Ég las fyrstu bókina á ensku og varð hálf flökurt yfir væmninni og tæpum söguþræði hennar.
Í New Moon eru vampíran Edward Cullen (Robert Pattinson) og Bella Swan (Kristen Stewart) búin að opinbera samband sitt og allt virðist ganga vel. En Bella getur aldrei fyllilega átt heima með Edward og til að vernda hana flytur hann og fjölskylda hans burt. Bella lendir þá í ástarsorg og reynir af öllum mætti að komast yfir Edward en hún vælir samt endalaust yfir því hvað það sé ómögulegt. Á meðan myndar hún sterka vináttu við Jacob Black (Taylor Lautner) sem má kalla "the boy next door" kvikmyndarinnar. Þegar Jacob verður síðan hrifinn af Bellu vandast málið fyrir hana. 

Leikurinn er aðallega það sem gerir myndina lélega auk veiks söguþráðs. Kristen Stewart er svo slæm leikkona að það eru varla til orð sem lýsa því. Ég fann fyrir lönguninni til að einfaldlega loka augunum meðan hún var á skjánum, sem er ekki gott því hún er yfirgnæfandi aðalhlutverk. Robert Pattinson er nú ekki mikið skárri, en greyið strákurinn þarf að fara með svo illa skrifaðar, væmnar línur að það er kannski ekki furða. Taylor Lautner hefur breyst mikið frá fyrstu myndinni, allt í einu er hann vöðvafjall. Verð að gefa honum hrós fyrir það að helga sig hlutverkinu. Það átti að finna annan leikara í hans stað því karakterinn hans, Jacob, fullorðnast og stækkar svo mikið á stuttum tíma. Þá tók Lautner sig til og gerði einmitt það. Hann er líka ekki alslæmur leikari. 

Tæknibrellurnar voru einstaklega góðar í New Moon, hún má eiga það. Fáránlega flott þegar strákarnir breytast í úlfa, ótrúlega vel gert. Tónlistin var líka fín. 
Maður verður víst að líta á þessa mynd sem eitt annað æðið sem unglingsstelpur missa sig yfir og ekkert meira. Þá veldur hún víst ekki vonbrigðum því hún halar inn þvílíkum peningum, líkt og bækurnar. 

1 comment: