Sem gífurlegur aðdáandi Harry Potter bókanna hef ég alltaf átt erfitt með að kunna að meta kvikmyndirnar byggðar á bókunum, enda hafa þær verið misgóðar. Loksins tókst mér samt að meta þær sem allt annað listform en bækurnar. Og viti menn, ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum með the Half-Blood Prince! Auðvitað vantar ýmislegt og furðulegustu hlutum er bætt inn en allt í allt hafði ég mjög gaman af henni. Reyndar á ég erfitt með að skilja hvað þeir ætla að gera í næstu myndum því það vantaði nokkur lykilatriði í þessa. J.K. Rowling hefur samt haft umsjón með kvikmyndunum og verður maður að treysta því að hún leyfi þeim ekki að gera nein alvarleg mistök.
David Yates hefur algjörlega sannað sig sem besti leikstjóri Harry Potter myndanna hingað til, enda leikstýrði hann the Order of the Phoenix ásamt þessari og mun hann leikstýra næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows.
Stemningin í the Half Blood Prince er mjög lýsandi fyrir bókina, áhorfandinn finnur stöðugt fyrir yfirvofandi hættu. Litirnir eru daufir og veðurfarið oftast slæmt. Sem dæmi má nefna að lestarferðin til Hogwarts hefur í fyrri myndum verið mjög glaðleg meðan lestin þeytist í gegnum sólskin og græn engi. En í the Half Blood Prince er lestarferðin köld og stíf, maður finnur fyrir óttanum.
Ef til vill voru ástarflækjur unglinganna of stór hluti af myndinni, sérstaklega með tilliti til þess að lykilatriði sögunnar fengu að fjúka fyrir þeim. En þau veittu myndinni þó húmor og léttleika sem annars hefði verið lítið af.
Atburðarás kvikmyndarinnar virðist leiða að ákveðnum hápunkti sem veldur mjög miklum vonbrigðum því hann kemur aldrei. Sleppt var bardaganum í endann á skólalóð Hogwarts og finnst mér það stór galli á myndinni því the death eaters virðast sleppa auðveldlega burt frá voðaverkinu sem þau frömdu.
Eitt sem verður engan veginn tekið frá Harry Potter myndunum er stórkostlega leikaralið þeirra. Alan Rickman er einfaldlega guð. Hann leikur Severus Snape af þvílíkri snilld og túlkar vel þær upplýsingar um karakterinn sem hann fékk hjá J.K. Rowling sjálfri. Michael Gambon komst loksins inn í hjarta mitt sem Albus Dumbledore í þessari mynd. Eftir dauða Richard Harris eftir aðra myndina átti ég mjög erfitt með að sætta mig við Gambon og fannst hann ekki ná anda Dumbledore jafn vel og Harris. En í the Half Blood Prince hefur Dumbledore þróast mikið sem karakter og er orðinn flóknari og þjáðari, sem Michael Gambon leikur fullkomlega.
Augljóst er að Rupert Grint er bestur meðal ungu leikaranna í myndinni. Hann er frábær sem Ron Weasley og er hann sá eini af þríeykinu sem hefur staðist væntingar mínar til karaktersins og gott meira.
Eflaust er hægt að finna eitthvað gott við Daniel Radcliffe en ég einfaldlega get það ekki. Hann er svo langt frá því að vera sá Harry Potter sem ég sé fyrir mér. Auðvitað er mjög erfitt að “casta” barnaleikara og vona að þeir vaxi vel úr grasi. Radcliffe hentaði vel sem Harry í fyrstu myndunum en strax og hann varð eldri fannst mér allt sem hann gerði svo veikt og vælulegt. Sem er svo ótrúlega langt frá Harry Potter.
Eitt sem ég var gífurlega ánægð með var leikaravalið á ungum Voldemort. Ungi Tom Riddle (Voldemort) á munaðarleysingjahælinu gaf mér þvílíkan hroll. Einnig var hann einstaklega óhugnanlegur sem unglingur. Mjög vel gert hjá þessum tveim leikurum sem voru valdnir til hlutverksins.
Ég hef voða lítið fleira að segja nema að ég bíð spennt eftir næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows!
8 stig.
ReplyDelete