Saturday, October 31, 2009

The Descent (2005)

Jæja, hér er annað blogg. 

Um daginn ákvað ég að hafa hryllingsmyndakvöld. Ég hafði frétt það frá systur minni að "The Descent" væri mest ógnvekjandi mynd sem hún hafði séð og ákvað að það væri einmitt það sem ég væri að leita að. Ég hefði mátt vita að ég yrði fyrir vonbrigðum því systir mín er frekar mikill hræðslupúki þegar kemur að kvikmyndum...
Myndin er svo sem alveg ágæt. Engin til að hrópa húrra fyrir. Ég tók eftir því á imdb að hún hefur fengið mjög misjafna dóma. 

Ári eftir að Sarah missir eiginmann sinn og dóttur ákveða vinkonur hennar að ævintýraleg hellaskoðun í góðra vina hópi sé einmitt það sem hún þarf á að halda. Vinkonurnar fara ofan í djúpan, djúpan helli og fara í gegnum þröng göng að til að komast enn dýpra. Þegar steinahrun verður lokast útgönguleið vinkvennana og þær festast í hellinum. Í neyð kemur fram sanna eðli þeirra og ýmsir hlutir koma upp á yfirborðið. Fyrr en varir uppgvöta þær tilvist blóðþyrstra skepna sem lifa neðanjarðar í hellinum og þær berjast fyrir lífi sínu í leit að útgönguleið. 

Góð hugmynd og eflaust erfitt fyrir fólk með innilokunarkennd að horfa á en mér fannst mjög leiðinlegt þegar einhverjar hryllilegar verur komu inn í myndina. Kannski er það bara ég, en ég á alltaf voða erfitt með að finnast svona ekki kjánalegt. Það eyðilagði myndina eiginlega fyrir mér, í staðinn fyrir að vera hrædd leið mér asnalega. 
Annars komst ég alveg í gegnum "The Descent" og held að það fari eftir smekk hvert álit fólks er á henni. Ég er alla vega enn að leita mér að hinni virkilega ógnvekjandi mynd til að hafa á næsta hryllingsmyndakvöldi.

1 comment:

  1. Ég hef ætlað að horfa á þessa ansi lengi, því hún fékk góða dóma á sínum tíma. En þótt ég viti ekki hvernig það gerist í þessari mynd þá er ég almennt sammála þér, hryllingsmyndir virka yfirleitt langbest á meðan þær sýna manni ekki það sem maður á að óttast.

    5 stig.

    ReplyDelete