Þar sem ég var að átta mig á því að á morgun gengur nóvember í garð ætla ég að punga út bloggfærslu, ef til vill nokkrum. Stórfurðulegt hvað tíminn líður hratt.
Mynd sem ég horfði á nýlega var “Death on the Nile” frá árinu 1978. Í aðalhlutverki sem spæjarinn Hercule Poirot er hinn stórskemmtilegi Peter Ustinov. Með önnur hlutverk fara Bette Davis, Mia Farrow, Maggie Smith og fleiri.
Vegna ástar minnar á Egyptalandi og þeirrar staðreyndar að ég hef verið alin upp við kvikmyndir byggðar á sögum Agöthu Christie var það ljóst að ég varð einfaldlega að sjá “Death on the Nile” sem allt í einu poppaði upp á Sky eftir margar tilraunir mínar til að finna hana.
Myndin gerist í Egyptalandi, að mestu í siglingu á ánni Níl. Þegar ríka konan Linnet Ridgeway finnst dáin á skemmtiferðarskipinu S.S. Karnak tekur Hercule Poirot til starfa við það sem hann gerir best, að finna morðingjann. Með hjálp vinar síns Johnny Race rannsakar Hercule Poirot hverja einustu manneskju á skipinu því ein þeirra hlýtur að hafa myrt Linnet. Hann kemst hann að því að allir á skipinu höfðu góða ástæðu til að vilja Linnet dauða, og þá vandast málið. En með snilligáfu sinni tekst Poirot að komast að sannleikanum sem kemur öllum svo sannarlega á óvart.
Ég hef alltaf jafn gaman af myndunum um Hercule Poirot og var þessi engin undantekning. Ég skemmti mér við að leysa málið “samhliða” Poirot og koma með ágiskanir um hver morðinginn sé.
Í “Death on the Nile” eru sýnd einstök menningarverðmæti Egyptalands eins og píramídarnir við Giza, sfinxinn, Karnak hofið í Luxor og Abu Simbel hof Ramesar II og skapaði það skemmtilega stemningu í myndinni.
Mér fannst dálítið skrítið að sjá Peter Ustinov sem Poirot því ég er svo rosalega vön David Suchet í hlutverkinu. En það var aðeins í fyrstu því hann stóð sig mjög vel sem spæjarinn.
Mæli hiklaust með myndinni fyrir alla sem hafa gaman af svona “murder mysteries”.
Hljómar nokkuð skemmtilega. 5 stig.
ReplyDelete