Friday, September 18, 2009

Topplisti

Hér kemur loksins topplistinn minn. 
Mér fannst frekar erfitt að setja hann saman þar sem ég hef aldrei virkilega pælt í þessu áður. 

Listinn er ekki í neinni ákveðinni röð og alls ekki tæmandi.

-------------------------------------------

The Wind That Shakes the Barley (2006)

Datt óvart inn í þessa mynd eitt sinn og hún heillaði mig svakalega. The Wind That Shakes the Barley er írsk kvikmynd. Hún er leikstýrð af Ken Loach sem vann Gullpálmann á Kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir myndina árið 2006.

Kvikmyndin fjallar um sjálfstæðisbaráttu Írlands við Bretland í kringum árið 1920. Damien O’Donovan (leikinn af Cillian Murphy) kemur úr litlum bæ í sýslunni Cork. Hann ætlar að halda til London í framhaldsnám í læknisfræði. Bróðir hans, Teddy (Pádraic Delaney), er í írska sjálfstæðishernum. Damien er sannfærður um að sjálfstæðisher Írlands getur aldrei borið sigur úr býtum gegn Bretlandi og að þetta sé tilgangslaus barátta. En á leið sinni frá Cork verður hann vitni að grimmilegri meðferð breskra hermanna á írskum lestarstjóra og ákveður að vera eftir á Írlandi og hjálpa bróður sínum. Átökin færast fljótt í öfgar og ungir strákar neyðast til að fullorðnast og taka þátt í hræðilegum gjörðum. Eftir að foringi sjálfstæðishersins, Teddy O’Donovan, er pyntur og þarf að jafna sig tekur Damien við stjórninni. Hann neyðist til að aflífa svikara innan hreyfingarinnar sem var æskuvinur hans. Þennan atburð má túlka sem fyrirboða atburða seinna í myndinni.

“I studied anatomy for five years, Dan. And now I’m going to shoot this man in the head. I’ve known Chris Reilly since he was a child. I hope this Ireland we’re fighting for is worth it.”

Eftir allmikið blóðbað hefjast samningaviðræður á milli Íra og Breta. Þegar sigur virðist vera í höfn koma hins vegar í ljós ákvæði sem veita Írum ekki skilyrðislaust frelsi. Nú klofnar sjálfstæðisher Íra í tvennt: þá sem sætta sig við samninga Breta og þá sem hafa ekki misst sjónar á upprunalegu draumum Íra og krefjast fulls sjálfstæðis. Ekki líður að löngu þangað til að borgarastyrjöld brýst fram og lenda bræðurnir tveir, Damien og Teddy sitthvoru megin við víglínurnar.

“You have wrapped yourself in The fucking Union Jack! The butcher’s apron, boy!”

The Wind That Shakes the Barley hlífir engum við því að sjá hversu hræðilega Bretar fóru með Íra á þessum tíma og fer Ken Loach vel með sögulegar staðreyndir.  Hann dregur fram trúverðulega sýn á Írlandi á þessum tíma og tónlistin, búningar og umhverfið draga fram ákveðna stemningu. Leikararnir standa sig allir með prýði og þar má sérstaklega nefna Cillian Murphy.

Ken Loach í samstarfi við handritshöfundinn Paul Laverty tekst vel að segja frá blóði drifni frelsisbaráttu Írlands sem teygir sig fram í nútímann þar sem Norður-Írland tilheyrir enn Breska heimsveldinu.

Eins og heyra má er þetta mjög þung og pólitísk kvikmynd, en maður er nú stundum í stuði fyrir svoleiðis. 


The Odd Couple (1968)

The Odd Couple með Walter Matthau og Jack Lemmon á svo ótrúlega fastan stað í hjarta mínu, og einnig báðir leikararnir. Svo mikið að ég man enn þá daga sem þeir létust þótt ég hafi nú ekki verið gömul.
Myndin er byggð á samnefndu Broadway leikriti eftir Neil Simon og leikstýrð af Gene Saks. Hún segir frá einstakri vináttu Felix Ungar (Jack Lemmon) og Oscar Madison (Walter Matthau).
  Eftir að kona Felix slítur hjónabandinu reynir hann að fremja sjálfsmorð, sem tekst mjög erfiðlega hjá honum. Besti vinur hans, Oscar, sem er nýlega fráskilinn, tekur hann að sér og býður honum að flytja inn til sín. Vandmálið er hins vegar að Felix er taugaveiklaður snyrtipinni meðan Oscar er kærulaus sóði. Nú þurfa vinirnir tveir að búa saman án þess að ganga frá hvor öðrum.

Það er kannski ekki mikill tilgangur með The Odd Couple en þrátt fyrir það er hún tímalaus skemmtun og ég ligg í gólfinu af hlátri í hvert einasta skipti sem ég horfi á myndina. Jack Lemmon og Walter Matthau hafa ótrúlegt “chemistry” sem sést einnig í öllum hinum kvikmyndunum sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur saman. Það fer ekki milli mála að þeir voru góðir vinir utan hvíta tjaldsins, enda hvíla þeir hlið við hlið í kirkjugarðinum.

“I can’t take it anymore, Felix, I’m cracking up. Everything you do irritates me. And when you’re not here, the things I know you’re gonna do when you come in irritate me. You leave me little notes on my pillow. Told you 158 times I can’t stand little notes on my pillow. ‘We’re all out of cornflakes. F.U.’ Took me three hours to figure out F.U. was Felix Ungar! It’s not your fault, Felix; it’s a rotten combination, that’s all. “


Benjamín Dúfa (1995)

Kvikmynd úr æsku sem hafði ótrúlega mikil áhrif á mig. Hún er gerð eftir samnefndri bók eftir Friðrik Erlingsson.
Í myndinni snýr fullorðinn maður, Benjamín, aftur á æskuslóðir og rifjar upp atburði sem gerðust þar þegar hann var ungur strákur. Benjamín stofnaði ásamt þrem vinum sínum: Baldri, Andrési og Róland, riddarareglu Rauða Drekans. Saman börðust þeir fyrir réttlæti í hverfinu en málið flækist þegar önnur regla lítur dagsins ljós. Átök drengjanna enda síðan með grafalvarlegum afleiðingum.
Benjamín Dúfa er áhrifamikil og tilfinningaþrungin saga. Ég man að það fylgdu mörg tár í hvert sinn sem ég horfði á hana sem krakki.
 Þrá ungu drengjanna fyrir réttlæti og sjálfstæði þeirra í að eltast við það eru ótrúlega fallegir þættir í sögunni og sitja mjög fast í mér eftir öll þessi ár.



The Departed (2006)

The Departed er leikstýrð af Martin Scorsese og hlaut fjögur Óskarsverðlaun, m.a. fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn. Myndin skartar heimsfrægum leikurum á borð við Leonardo DiCaprio, Jack Nicholson, Matt Damon, Mark Whalberg ofl.

Kvikmyndin gerist í Boston þar sem lögreglan er að kljást við írska mafíósann Frank Costello (Jack Nicholson). Löggan Billy Costigan (Leonardo DiCaprio) er fenginn til að vera “undercover” hjá Frank Costello og kemur sér í innsta hring hjá honum. Á sama tíma er glæpamaðurinn Colin Sullivan (Matt Damon) sem vinnur fyrir Costello fenginn til að vera “undercover” hjá lögreglunni í Boston. Billy og Colin verða báðir djúpt sokknir í tvöföldu líf sín og keppast á við að komast að tilvist hvors annars.

"When you decide to be something, you can be it. That's what they don't tell you in the church. When I was your age they would say we can become cops, or criminals. Today, what I'm saying to you is this: when you're facing a loaded gun, what's the difference?"

The Departed er einstaklega góð mynd. Söguþráðurinn er spennandi og mjög skemmtileg “twist” koma fram. Það eru ekki margar myndir af þessari gerð sem heilla mig en The Departed dró mig strax inn og sat ég á sætisbrúninni allan tímann. Eina sem pirraði mig á köflum var hreimurinn hjá mörgum af leikurunum, en það er hægt að horfa fram hjá því. Rottan í bláenda myndarinnar er svo án efa frábært “touch”.


Back to the Future (trilogy) (1985-1990)

Einar af mínum uppáhaldsmyndum sem ég horfi reglulega á. Hvað er svo sem hægt að segja? Back to the Future myndirnar eru algjörlega ‘legendary’ og flestir þekkja þær.
Myndirnar eru leikstýrðar af Robert Zemeckis og Micheal J. Fox fer með aðalhlutverkið ásamt Christopher Lloyd sem er ógleymanlegur í hlutverki sínu sem brjálaði vísindamaðurinn. Unglingurinn Marty McFly (Michael J. Fox) og Dr. Emmett Brown (Christopher Lloyd) lenda í ýmsum ævintýrum þegar þeir breyta DeLorean bíl í tímavél. Án efa myndir sem allir verða að sjá, og láta krakkana sína sjá. 

"Don't worry. As long as you hit that wire with the connecting hook at precisely 88mph the instant the lightning strikes the tower... everything will be fine."


The Way We Were (1973)

The Way We Were er almennt talin ein af fyrstu ‘chick-flick’ myndunum. Kannski er það þess vegna sem hún höfðar svona til mín. Það sem ég elska hins vegar við myndina er að hún hefur ekki hinn týpíska ‘chick-flick’ endi. Það er líka eitthvað svo ótrúlega heillandi við Bandaríkin á stríðsárunum og ástarsögu á þeim tíma. Myndin er leikstýrð af Sydney Pollack og Robert Redford fer með aðalhlutverkið ásamt Barbra Streisand.
Katie Morosky og Hubbell Gardner kynnast fyrst í háskóla á sínum yngri árum. Þau eru ótrúlega ólík. Katie er málgefin, skoðanaföst og hefur mikinn áhuga á pólitík. Hubbell er hins vegar rólegur, áhyggjulaus og hefur engar ákveðnar pólitískar skoðanir. Þau rekast á hvort annað aftur í enda seinni heimsstyrjaldarinnar og verða brjálæðislega ástfangin. 

Hubbell laðast að Katie vegna ákveðni og sjálfstrausts hennar en það eru sömu eiginleikar hennar sem hann á erfitt með að höndla. Katie þráir Hubbell svo mikið að hún fórnar skoðunum sínum og ákveðni til að hann eigi auðveldara með hana. Þau gifta sig en þrátt fyrir ástríðufulla ást þeirra eiga Katie og Hubbell mjög erfitt með að vera saman.  Það er síðan bitursætt þegar þau átta sig á því að þau munu aldrei ganga upp.

Lagið ‘The Way We Were' með Barbra Streisand er vel þekkt og vann myndin Óskarsverðlaun fyrir það og tónlistina í myndinni.

“Your girl is lovely, Hubbell.” 


----------------------------------------------

Aðrar kvikmyndir sem gætu átt heima á þessum lista eru:

Lord of the Rings (trilogy) (2001-2003)

The Green Mile (1999)

The Shawshank Redemption (1994)

The Lion King (1994)

Seven (1995)

The Silence of the Lambs (1991)

Stand by Me (1986)