Með aðalhlutverk fara m.a. Leonoardo DiCaprio, Jeremy Irons, John Malkovich og Gérard Depardieu. Einnig má sjá Hugh Laurie fara með minniháttar hlutverk, sem ég hafði mjög gaman af. Myndin er leikstýrð af Randall Wallace, sem hefur skrifað handritið að stórmyndum líkt og Pearl Harbor og Braveheart.
Í The Man in the Iron Mask eru skytturnar þrjár, Porthos, Athos og Aramis, orðnir miðaldra menn og hættir ævintýralífinu sem skyttur franska konungsins. Lærlingur þeirra D'Artagnan er hins vegar yfirskytta hjá Louis XIV Frakkakonungi sem er illgjarn og vegna munaðarlífstíls hans og kostnaðarsamra stríða sveltur þjóðin. En D'Artagnan þjónaði föður Louis XIV og vill vera trúr honum með því að standa fast við hlið sonar hans og vona að einn daginn muni Louis verða sá konungur sem Frakkland á skilið.
En Porthos, Athos og Aramis eru komnir með nóg af illgirni konungsins og ætla sér að bjarga málunum. Aramis vissi eitt alvarlegt leyndarmál um konungsfjölskylduna. Þegar Anne drottning fæddi Louis XIV konung, vissi enginn að það hefðu komið tvíburar. Eineggja tvíburabróðir Louis var sendur í afskekkta sveit til að alast upp þangað til hann varð eldri. Þá var sett á hann járngríma til að hylja andlit hans og honum var stungið í bastilluna, fangelsi Parísar. Skytturnar þrjár ætluðu sér að frelsa tvíburabróður konungs, Philippe, og skipta hinum illgjarna Louis út fyrir hann. Vissulega virðist áætlun þeirra vera ómöguleg en hún var vandlega skipulögð og er spennandi að fylgjast með þeim framkvæma hana.
The Man in the Iron Mask er hin fínasta dægradvöl og mjög spennandi á köflum. Leonardo DiCaprio er einstakur leikari og er mjög góður sem Louis Frakklandskonungur og tvíburabróðir hans Philippe. Jeremy Irons er fullkominn sem Aramis og Gérard Derpardieu veitir "comic relief" í gegnum myndina. John Malkovich fer hins vegar alltaf í taugarnar á mér og því ekki að marka hvað mér finnst um hann.
Búningarnir í kvikmyndinni eru mjög vel gerðir og ná þessu tímabili fullkomlega. Einnig sýnir myndin frábærlega höll konungs, Versalir, og þann munað sem konungurinn lifir við meðan bróðir hans dvelst í Bastillunni, fangelsi Parísar. Samtölin eiga það hins vegar til að vera stirð finnst mér og kjánaleg á köflum en tónlistin er epísk og frábær.
The Man in the Iron Mask er ein af þeim myndum sem ég get horft á aftur og aftur. Það gæti verið vegna ánægju minnar á ævintýramyndum, en ég hef alla vega mjög gaman af henni.
7 stig.
ReplyDelete