Er ekki viss hvort hún er komin út hér á landi, ef svo er missti ég alla vega af því. En ég hafði heyrt mikið talað um þessa mynd á netinu og ákvað að downloada henni.
(500) Days of Summer fjallar um Tom Hansen (Joseph Gordon-Levitt) og stúlku drauma hans Summer Finn (Zooey Deschanel). Myndin segir frá sambandi Tom og Summer, sem virðist vera fullkomið í fyrstu en verður stormasamt því Summer neitar að "skilgreina sambandið". Tom trúir á sanna ást og að líf hans sé ekki fullkomið fyrr en hann finnur þá einu réttu. Summer er ekki sama sinnis og nýtur einfaldlega frelsisins. Sagan er ekki sögð í réttri tímaröð og byrjar á því að Summer virðist hafa sagt Tom upp. Tom er í ástarsorg og fylgjum við honum í gegnum erfiða tíma ásamt því að hoppa aftur í tímann og fylgjast með sambandi þeirra þróast. Þetta er mjög skemmtileg hugmynd og gefur myndinni einstakan blæ.
(500) Days of Summer er engan veginn hin týpíska rómantíska gamanmynd og er meira að segja varað við því í byrjun myndarinnar að þetta sé engin ástarsaga. Það er mjög upplífgandi hvað hún er ólík öllu sem áður hefur verið gert. Loksins er það strákurinn sem lendir í ástarsorg því stelpan er ekki tilbúin í samband, ekki oft sem maður sér það í kvikmyndum. Einnig eru samskipti persóna mjög raunvöruleg og Joseph Gordon-Levitt er frábær í hlutverki Tom og heldur myndinni alveg uppi. Hann vekur upp samúð áhorfandans ásamt því að skemmta honum yfir vonleysi sínu. Samtölin eru skemmtileg og fyndin. Zooey Deschanel er ótrúlega heillandi sem Summer Finn.
(500) Days of Summer skilur áhorfandann eftir með ólýsanlega tilfinningu. Endir myndarinnar er svo raunvörulegur og skilur ekki eftir þessi venjulegu ,,af hverju er lífið mitt ekki svona?" viðbrögð í áhorfandanum sem rómantísk gamanmynd frá Hollywood gerir. Heldur lætur (500) Days of Summer áhorfandann hugsa: ,,vá svona er einmitt lífið." Og það er alltaf góð tilfinning að vita að við erum ekki ein í erfiðleikum ástarinnar, meira að segja Hollywood skilur okkur.
Ég varð fyrir pínu vonbrigðum með þessa. Mér fannst aðalleikarinn einmitt ekki alveg standa undir því að halda myndinni uppi...
ReplyDelete5 stig.