Sunday, April 11, 2010

Michael Collins (1996)


Fyrir stuttu horfði ég á heimildarmynd um “the Easter Rising” á Írlandi árið 1916 og fannst mér hún mjög áhugaverð. Svo í dag þegar ég var að velja mynd til að blogga um ákvað ég að horfa á “Michael Collins”. Ég hafði aldrei séð hana áður en mikið er ég glöð að hafa ekki látið þennan gullmola fara endanlega framhjá mér.

Írland á sér blóði drifna sögu og hefur írska þjóðin mátt þola margt. Árið 1916 reyndi “the Irish Republican Brotherhood” (IRB), að koma á írsku lýðveldi og hrekja Breta burt í orustu sem hefur verið kölluð “the Easter Rising”. Þeir töpuðu og voru flestir leiðtogar IRB aflífaðir. Michael Collins kom þá fyrst fram á sjónarsviðið og er í þessari mynd frá 1996 leikin snilldarlega af Liam Neeson. Collins er sjarmerandi maður og hefur mikla hæfileika sem leiðtogi. Neeson túlkar hann frábærlega og á allan hug áhorfandans. Hann sýnir Collins sem misskilinn mann sem elskar land sitt af ástríðu og er tilbúinn til að gera allt fyrir frelsi írsku þjóðarinnar. Hann er ákafur og sýnir myrku hliðar Collins jafnt og þær ljósu á sannfærandi hátt.
Michael Collins skipuleggur aflífun írskra uppljóstrara fyrir Breta og myrðir þá vægðarlaust, þetta vakti skiljanlega óhug hjá mörgum. Collins telur að eina leiðin til að koma hugsjónum þeirra um írskt lýðveldi á framfæri sé að sýna breska heimsveldinu miskunnarleysi þeirra. Þó er hann tregur til að samþykkja slík voðaverk. Bretar svara síðan í sömu mynt og fjöldi saklausra Íra er drepinn á fótboltaleik í Croke Park.

“I hate them for making hate necessary, and I'll do what I can to end it.” –Michael Collins

Eamon de Valera (Alan Rickman) er forseti írska þingsins, Dáil Éireann. Hann sendir Michael Collins til London til að semja við bresku stjórnina. Collins kemur aftur til Írlands með sáttmála sem samþykkir stofnun írska fríríkisins (free state) en norðrið tilheyrir enn fullkomlega Bretum og Írar þurfa að lýsa breska heimsveldinu hollustu sína. De Valera er ekki sáttur en Collins stendur fast á því að þetta sé það besta sem þeir geta gert í bili og aðeins fyrsta skrefið í átt að lýðveldi. Ósætti varðandi sáttmálann brýst út hjá þjóðinni og fljótt hefst borgarastyrjöld. De Valera er gegn sáttmálanum en Collins vill stöðva ofbeldið og samþykkja sáttmálann. Skelfilegt er að fylgjast með átökum á milli manna sem eitt sinn stóðu saman.
Undirliggjandi ástarsaga léttir aðeins yfir myndinni. Kitty Kiernan (Julia Roberts) er heillandi írsk stúlka sem er dáð og dýrkuð af bæði Michael Collins og besta vini hans Harry Boland (Aidan Q
uinn). Vinirnir keppa um ástir Kitty en þó er léttur andi yfir því. Liam Neeson er ótrúlega hrífandi sem Collins og er hann hnyttinn og myndarlegur.

"I want peace and quiet. I want it so much I'd die for it." -Michael Collins

Myndin skartar fjölmörgum frábærum leikurum. Ég hef þegar lofað frammi-stöðu Liam Neeson, ég einfaldlega dái og dýrka þennan mann. Það er ótrúlega gaman að fá alvöru blóðheitan, írskan mann í hlutverk þessarar þjóðhetju. Alan Rickman er frekar fullkominn í hlutverk Eamon de Valera og leikur af sömu snilld og alltaf. Þó svo að hann nái kannski ekki alveg “Íranum” í hlutverki sínu. Aidan Quinn leikur sidekick Collins og besta vin hans, Harry Boland. Ég get sko svarið það ég hélt að hann væri írskur. Hann má eiga það, hann stendur sig mjög vel. Julia Roberts er ekki alslæm sem Kitty Kiernan, hún verður skárri þegar líður á myndina. Hreimurinn hennar flakkar frá írskum til amerísks. Hún er gullfalleg og allt það, en gátu þeir í alvörunni ekki fundið írska leikkonu í hlutverkið? Julia Roberts er eiginlega of “commercial”. Jonathan Rhys Meyers birtist örstutt í endann og er mjög skemmtilegt að sjá hann svo rosalegan ungan í aukahlutverki.

Michael Collins er leikstýrð og skrifuð af Neil Jordan og á hann stórt hrós skilið.

Chris Menges sá um kvikmyndun og stóð sig stórkostlega. Litir og birta myndarinnar eru lýsandi fyrir andrúmsloftið í henni og umhverfið tekur mann hreinlega aftur á þennan tíma.
Tónlistin í Michael Collins er framúrskarandi. Hún dró mig inn í myndina og gerði það að verkum að ég upplifði allt það sama og persónurnar. Elliot Goldenthal samdi tónlistina og er ákveðin írsk stemning í henni út alla myndina sem gefur góðan heildarsvip.
Örfá söguleg mistök eru samkvæmt sagnfræðingum en hægt er að réttlæta þau flest.

Michael Collins var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir bestu kvikmyndun og bestu frumsömdu tónlist.

Ég var algjörlega heilluð af myndinni og þá sérstaklega leik Liam Neeson. Myndin er í lengri kantinum, eða 133 mínútur, en þó tók ég ekkert eftir því og var einbeitt að atburðarásinni allan tímann. Mæli með Michael Collins fyrir alla sem hafa áhuga á sögulegum myndum!

Eamon de Valera varð síðar forseti írska lýðveldisins og sagði:
"It is in my considered opinion that in the fullness of time history will record the greatness of Michael Collins... and it will be recorded at my expense."

1 comment: