Friday, December 4, 2009

The Twilight Saga: New Moon (2009)

Ég fór á frumsýninguna á New Moon með 27 ára systur minni sem er eins og hin versta unglingsstelpa þegar kemur að Twilight bókunum. Það var vægast sagt sársaukafullt að horfa á þessa mynd og ekki gerði troðningur öskrandi stelpna hana skárri. Af einhverjum ástæðum drógst ég ekki inn í þetta æði Twilight bókanna og er því mjög fegin. Ég las fyrstu bókina á ensku og varð hálf flökurt yfir væmninni og tæpum söguþræði hennar.
Í New Moon eru vampíran Edward Cullen (Robert Pattinson) og Bella Swan (Kristen Stewart) búin að opinbera samband sitt og allt virðist ganga vel. En Bella getur aldrei fyllilega átt heima með Edward og til að vernda hana flytur hann og fjölskylda hans burt. Bella lendir þá í ástarsorg og reynir af öllum mætti að komast yfir Edward en hún vælir samt endalaust yfir því hvað það sé ómögulegt. Á meðan myndar hún sterka vináttu við Jacob Black (Taylor Lautner) sem má kalla "the boy next door" kvikmyndarinnar. Þegar Jacob verður síðan hrifinn af Bellu vandast málið fyrir hana. 

Leikurinn er aðallega það sem gerir myndina lélega auk veiks söguþráðs. Kristen Stewart er svo slæm leikkona að það eru varla til orð sem lýsa því. Ég fann fyrir lönguninni til að einfaldlega loka augunum meðan hún var á skjánum, sem er ekki gott því hún er yfirgnæfandi aðalhlutverk. Robert Pattinson er nú ekki mikið skárri, en greyið strákurinn þarf að fara með svo illa skrifaðar, væmnar línur að það er kannski ekki furða. Taylor Lautner hefur breyst mikið frá fyrstu myndinni, allt í einu er hann vöðvafjall. Verð að gefa honum hrós fyrir það að helga sig hlutverkinu. Það átti að finna annan leikara í hans stað því karakterinn hans, Jacob, fullorðnast og stækkar svo mikið á stuttum tíma. Þá tók Lautner sig til og gerði einmitt það. Hann er líka ekki alslæmur leikari. 

Tæknibrellurnar voru einstaklega góðar í New Moon, hún má eiga það. Fáránlega flott þegar strákarnir breytast í úlfa, ótrúlega vel gert. Tónlistin var líka fín. 
Maður verður víst að líta á þessa mynd sem eitt annað æðið sem unglingsstelpur missa sig yfir og ekkert meira. Þá veldur hún víst ekki vonbrigðum því hún halar inn þvílíkum peningum, líkt og bækurnar. 

(500) Days of Summer (2009)


Er ekki viss hvort hún er komin út hér á landi, ef svo er missti ég alla vega af því. En ég hafði heyrt mikið talað um þessa mynd á netinu og ákvað að downloada henni. 
(500) Days of Summer fjallar um Tom Hansen (Joseph Gordon-Levitt) og stúlku drauma hans Summer Finn (Zooey Deschanel). Myndin segir frá sambandi Tom og Summer, sem virðist vera fullkomið í fyrstu en verður stormasamt því Summer neitar að "skilgreina sambandið". Tom trúir á sanna ást og að líf hans sé ekki fullkomið fyrr en hann finnur þá einu réttu. Summer er ekki sama sinnis og nýtur einfaldlega frelsisins. Sagan er ekki sögð í réttri tímaröð og byrjar á því að Summer virðist hafa sagt Tom upp. Tom er í ástarsorg og fylgjum við honum í gegnum erfiða tíma ásamt því að hoppa aftur í tímann og fylgjast með sambandi þeirra þróast. Þetta er mjög skemmtileg hugmynd og gefur myndinni einstakan blæ. 


(500) Days of Summer er engan veginn hin týpíska rómantíska gamanmynd og er meira að segja varað við því í byrjun myndarinnar að þetta sé engin ástarsaga. Það er mjög upplífgandi hvað hún er ólík öllu sem áður hefur verið gert. Loksins er það strákurinn sem lendir í ástarsorg því stelpan er ekki tilbúin í samband, ekki oft sem maður sér það í kvikmyndum. Einnig eru samskipti persóna mjög raunvöruleg og Joseph Gordon-Levitt er frábær í hlutverki Tom og heldur myndinni alveg uppi. Hann vekur upp samúð áhorfandans ásamt því að skemmta honum yfir vonleysi sínu. Samtölin eru skemmtileg og fyndin. Zooey Deschanel er ótrúlega heillandi sem Summer Finn. 
(500) Days of Summer skilur áhorfandann eftir með ólýsanlega tilfinningu. Endir myndarinnar er svo raunvörulegur og skilur ekki eftir þessi venjulegu ,,af hverju er lífið mitt ekki svona?" viðbrögð í áhorfandanum sem rómantísk gamanmynd frá Hollywood gerir. Heldur lætur (500) Days of Summer áhorfandann hugsa: ,,vá svona er einmitt lífið." Og það er alltaf góð tilfinning að vita að við erum ekki ein í erfiðleikum ástarinnar, meira að segja Hollywood skilur okkur.


The Man in the Iron Mask (1998)

Datt inn í hana á bíórásinni um daginn þar sem hún er reglulega sýnd. Ég verð að viðurkenna að síðan ég var krakki hef ég dýrkað þessa mynd, þótt hún sé kannski ekki alveg sú besta í heimi. Skytturnar þrjár bregðast aldrei. 



Með aðalhlutverk fara m.a. Leonoardo DiCaprio, Jeremy Irons, John Malkovich og Gérard Depardieu. Einnig má sjá Hugh Laurie fara með minniháttar hlutverk, sem ég hafði mjög gaman af. Myndin er leikstýrð af Randall Wallace, sem hefur skrifað handritið að stórmyndum líkt og Pearl Harbor og Braveheart. 
Í The Man in the Iron Mask eru skytturnar þrjár, Porthos, Athos og Aramis, orðnir miðaldra menn og hættir ævintýralífinu sem skyttur franska konungsins. Lærlingur þeirra D'Artagnan er hins vegar yfirskytta hjá Louis XIV Frakkakonungi sem er illgjarn og vegna munaðarlífstíls hans og kostnaðarsamra stríða sveltur þjóðin. En D'Artagnan þjónaði föður Louis XIV og vill vera trúr honum með því að standa fast við hlið sonar hans og vona að einn daginn muni Louis verða sá konungur sem Frakkland á skilið. 
En Porthos, Athos og Aramis eru komnir með nóg af illgirni konungsins og ætla sér að bjarga málunum. Aramis vissi eitt alvarlegt leyndarmál um konungsfjölskylduna. Þegar Anne drottning fæddi Louis XIV konung, vissi enginn að það hefðu komið tvíburar. Eineggja tvíburabróðir Louis var sendur í afskekkta sveit til að alast upp þangað til hann varð eldri. Þá var sett á hann járngríma til að hylja andlit hans og honum var stungið í bastilluna, fangelsi Parísar. Skytturnar þrjár ætluðu sér að frelsa tvíburabróður konungs, Philippe, og skipta hinum illgjarna Louis út fyrir hann. Vissulega virðist áætlun þeirra vera ómöguleg en hún var vandlega skipulögð og er spennandi að fylgjast með þeim framkvæma hana. 
The Man in the Iron Mask er hin fínasta dægradvöl og mjög spennandi á köflum. Leonardo DiCaprio er einstakur leikari og er mjög góður sem Louis Frakklandskonungur og tvíburabróðir hans Philippe. Jeremy Irons er fullkominn sem Aramis og Gérard Derpardieu veitir "comic relief" í gegnum myndina. John Malkovich fer hins vegar alltaf í taugarnar á mér og því ekki að marka hvað mér finnst um hann. 
Búningarnir í kvikmyndinni eru mjög vel gerðir og ná þessu tímabili fullkomlega. Einnig sýnir myndin frábærlega höll konungs, Versalir, og þann munað sem konungurinn lifir við meðan bróðir hans dvelst í Bastillunni, fangelsi Parísar. Samtölin eiga það hins vegar til að vera stirð finnst mér og kjánaleg á köflum en tónlistin er epísk og frábær. 

The Man in the Iron Mask er ein af þeim myndum sem ég get horft á aftur og aftur. Það gæti verið vegna ánægju minnar á ævintýramyndum, en ég hef alla vega mjög gaman af henni.



Harry Potter and the Half-Blood Prince (2009)

Sem gífurlegur aðdáandi Harry Potter bókanna hef ég alltaf átt erfitt með að kunna að meta kvikmyndirnar byggðar á bókunum, enda hafa þær verið misgóðar. Loksins tókst mér samt að meta þær sem allt annað listform en bækurnar. Og viti menn, ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum með the Half-Blood Prince! Auðvitað vantar ýmislegt og furðulegustu hlutum er bætt inn en allt í allt hafði ég mjög gaman af henni. Reyndar á ég erfitt með að skilja hvað þeir ætla að gera í næstu myndum því það vantaði nokkur lykilatriði í þessa. J.K. Rowling hefur samt haft umsjón með kvikmyndunum og verður maður að treysta því að hún leyfi þeim ekki að gera nein alvarleg mistök.

David Yates hefur algjörlega sannað sig sem besti leikstjóri Harry Potter myndanna hingað til, enda leikstýrði hann the Order of the Phoenix ásamt þessari og mun hann leikstýra næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows.
Stemningin í the Half Blood Prince er mjög lýsandi fyrir bókina, áhorfandinn finnur stöðugt fyrir yfirvofandi hættu. Litirnir eru daufir og veðurfarið oftast slæmt. Sem dæmi má nefna að lestarferðin til Hogwarts hefur í fyrri myndum verið mjög glaðleg meðan lestin þeytist í gegnum sólskin og græn engi. En í the Half Blood Prince er lestarferðin köld og stíf, maður finnur fyrir óttanum.

Ef til vill voru ástarflækjur unglinganna of stór hluti af myndinni, sérstaklega með tilliti til þess að lykilatriði sögunnar fengu að fjúka fyrir þeim. En þau veittu myndinni þó húmor og léttleika sem annars hefði verið lítið af.

Atburðarás kvikmyndarinnar virðist leiða að ákveðnum hápunkti sem veldur mjög miklum vonbrigðum því hann kemur aldrei. Sleppt var bardaganum í endann á skólalóð Hogwarts og finnst mér það stór galli á myndinni því the death eaters virðast sleppa auðveldlega burt frá voðaverkinu sem þau frömdu.

Eitt sem verður engan veginn tekið frá Harry Potter myndunum er stórkostlega leikaralið þeirra. Alan Rickman er einfaldlega guð. Hann leikur Severus Snape af þvílíkri snilld og túlkar vel þær upplýsingar um karakterinn sem hann fékk hjá J.K. Rowling sjálfri. Michael Gambon komst loksins inn í hjarta mitt sem Albus Dumbledore í þessari mynd. Eftir dauða Richard Harris eftir aðra myndina átti ég mjög erfitt með að sætta mig við Gambon og fannst hann ekki ná anda Dumbledore jafn vel og Harris. En í the Half Blood Prince hefur Dumbledore þróast mikið sem karakter og er orðinn flóknari og þjáðari, sem Michael Gambon leikur fullkomlega.
Augljóst er að Rupert Grint er bestur meðal ungu leikaranna í myndinni. Hann er frábær sem Ron Weasley og er hann sá eini af þríeykinu sem hefur staðist væntingar mínar til karaktersins og gott meira.

Eflaust er hægt að finna eitthvað gott við Daniel Radcliffe en ég einfaldlega get það ekki. Hann er svo langt frá því að vera sá Harry Potter sem ég sé fyrir mér. Auðvitað er mjög erfitt að “casta” barnaleikara og vona að þeir vaxi vel úr grasi. Radcliffe hentaði vel sem Harry í fyrstu myndunum en strax og hann varð eldri fannst mér allt sem hann gerði svo veikt og vælulegt. Sem er svo ótrúlega langt frá Harry Potter.

Eitt sem ég var gífurlega ánægð með var leikaravalið á ungum Voldemort. Ungi Tom Riddle (Voldemort) á munaðarleysingjahælinu gaf mér þvílíkan hroll. Einnig var hann einstaklega óhugnanlegur sem unglingur. Mjög vel gert hjá þessum tveim leikurum sem voru valdnir til hlutverksins.

Ég hef voða lítið fleira að segja nema að ég bíð spennt eftir næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows!


Saturday, October 31, 2009

The Descent (2005)

Jæja, hér er annað blogg. 

Um daginn ákvað ég að hafa hryllingsmyndakvöld. Ég hafði frétt það frá systur minni að "The Descent" væri mest ógnvekjandi mynd sem hún hafði séð og ákvað að það væri einmitt það sem ég væri að leita að. Ég hefði mátt vita að ég yrði fyrir vonbrigðum því systir mín er frekar mikill hræðslupúki þegar kemur að kvikmyndum...
Myndin er svo sem alveg ágæt. Engin til að hrópa húrra fyrir. Ég tók eftir því á imdb að hún hefur fengið mjög misjafna dóma. 

Ári eftir að Sarah missir eiginmann sinn og dóttur ákveða vinkonur hennar að ævintýraleg hellaskoðun í góðra vina hópi sé einmitt það sem hún þarf á að halda. Vinkonurnar fara ofan í djúpan, djúpan helli og fara í gegnum þröng göng að til að komast enn dýpra. Þegar steinahrun verður lokast útgönguleið vinkvennana og þær festast í hellinum. Í neyð kemur fram sanna eðli þeirra og ýmsir hlutir koma upp á yfirborðið. Fyrr en varir uppgvöta þær tilvist blóðþyrstra skepna sem lifa neðanjarðar í hellinum og þær berjast fyrir lífi sínu í leit að útgönguleið. 

Góð hugmynd og eflaust erfitt fyrir fólk með innilokunarkennd að horfa á en mér fannst mjög leiðinlegt þegar einhverjar hryllilegar verur komu inn í myndina. Kannski er það bara ég, en ég á alltaf voða erfitt með að finnast svona ekki kjánalegt. Það eyðilagði myndina eiginlega fyrir mér, í staðinn fyrir að vera hrædd leið mér asnalega. 
Annars komst ég alveg í gegnum "The Descent" og held að það fari eftir smekk hvert álit fólks er á henni. Ég er alla vega enn að leita mér að hinni virkilega ógnvekjandi mynd til að hafa á næsta hryllingsmyndakvöldi.

Death on the Nile (1978)



Þar sem ég var að átta mig á því að á morgun gengur nóvember í garð ætla ég að punga út bloggfærslu, ef til vill nokkrum.  Stórfurðulegt hvað tíminn líður hratt.


Mynd sem ég horfði á nýlega var “Death on the Nile” frá árinu 1978.  Í aðalhlutverki sem spæjarinn Hercule Poirot er hinn stórskemmtilegi Peter Ustinov. Með önnur hlutverk fara Bette Davis, Mia Farrow, Maggie Smith og fleiri.
Vegna ástar minnar á Egyptalandi og þeirrar staðreyndar að ég hef verið alin upp við kvikmyndir byggðar á sögum Agöthu Christie var það ljóst að ég varð einfaldlega að sjá “Death on the Nile” sem allt í einu poppaði upp á Sky eftir margar tilraunir mínar til að finna hana.

Myndin gerist í Egyptalandi, að mestu í siglingu á ánni Níl. Þegar ríka konan Linnet Ridgeway finnst dáin á skemmtiferðarskipinu S.S. Karnak tekur Hercule Poirot til starfa við það sem hann gerir best, að finna morðingjann. Með hjálp vinar síns Johnny Race rannsakar Hercule Poirot hverja einustu manneskju á skipinu því ein þeirra hlýtur að hafa myrt Linnet. Hann kemst hann að því að allir á skipinu höfðu góða ástæðu til að vilja Linnet dauða, og þá vandast málið. En með snilligáfu sinni tekst Poirot að komast að sannleikanum sem kemur öllum svo sannarlega á óvart.

Ég hef alltaf jafn gaman af myndunum um Hercule Poirot og var þessi engin undantekning. Ég skemmti mér við að leysa málið “samhliða” Poirot og koma með ágiskanir um hver morðinginn sé.
Í “Death on the Nile” eru sýnd einstök menningarverðmæti Egyptalands eins og píramídarnir við Giza, sfinxinn, Karnak hofið í Luxor og Abu Simbel hof Ramesar II og skapaði það skemmtilega stemningu í myndinni.
Mér fannst dálítið skrítið að sjá Peter Ustinov sem Poirot því ég er svo rosalega vön David Suchet í hlutverkinu. En það var aðeins í fyrstu því hann stóð sig mjög vel sem spæjarinn.

Mæli hiklaust með myndinni fyrir alla sem hafa gaman af svona “murder mysteries”.

Friday, September 18, 2009

Topplisti

Hér kemur loksins topplistinn minn. 
Mér fannst frekar erfitt að setja hann saman þar sem ég hef aldrei virkilega pælt í þessu áður. 

Listinn er ekki í neinni ákveðinni röð og alls ekki tæmandi.

-------------------------------------------

The Wind That Shakes the Barley (2006)

Datt óvart inn í þessa mynd eitt sinn og hún heillaði mig svakalega. The Wind That Shakes the Barley er írsk kvikmynd. Hún er leikstýrð af Ken Loach sem vann Gullpálmann á Kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir myndina árið 2006.

Kvikmyndin fjallar um sjálfstæðisbaráttu Írlands við Bretland í kringum árið 1920. Damien O’Donovan (leikinn af Cillian Murphy) kemur úr litlum bæ í sýslunni Cork. Hann ætlar að halda til London í framhaldsnám í læknisfræði. Bróðir hans, Teddy (Pádraic Delaney), er í írska sjálfstæðishernum. Damien er sannfærður um að sjálfstæðisher Írlands getur aldrei borið sigur úr býtum gegn Bretlandi og að þetta sé tilgangslaus barátta. En á leið sinni frá Cork verður hann vitni að grimmilegri meðferð breskra hermanna á írskum lestarstjóra og ákveður að vera eftir á Írlandi og hjálpa bróður sínum. Átökin færast fljótt í öfgar og ungir strákar neyðast til að fullorðnast og taka þátt í hræðilegum gjörðum. Eftir að foringi sjálfstæðishersins, Teddy O’Donovan, er pyntur og þarf að jafna sig tekur Damien við stjórninni. Hann neyðist til að aflífa svikara innan hreyfingarinnar sem var æskuvinur hans. Þennan atburð má túlka sem fyrirboða atburða seinna í myndinni.

“I studied anatomy for five years, Dan. And now I’m going to shoot this man in the head. I’ve known Chris Reilly since he was a child. I hope this Ireland we’re fighting for is worth it.”

Eftir allmikið blóðbað hefjast samningaviðræður á milli Íra og Breta. Þegar sigur virðist vera í höfn koma hins vegar í ljós ákvæði sem veita Írum ekki skilyrðislaust frelsi. Nú klofnar sjálfstæðisher Íra í tvennt: þá sem sætta sig við samninga Breta og þá sem hafa ekki misst sjónar á upprunalegu draumum Íra og krefjast fulls sjálfstæðis. Ekki líður að löngu þangað til að borgarastyrjöld brýst fram og lenda bræðurnir tveir, Damien og Teddy sitthvoru megin við víglínurnar.

“You have wrapped yourself in The fucking Union Jack! The butcher’s apron, boy!”

The Wind That Shakes the Barley hlífir engum við því að sjá hversu hræðilega Bretar fóru með Íra á þessum tíma og fer Ken Loach vel með sögulegar staðreyndir.  Hann dregur fram trúverðulega sýn á Írlandi á þessum tíma og tónlistin, búningar og umhverfið draga fram ákveðna stemningu. Leikararnir standa sig allir með prýði og þar má sérstaklega nefna Cillian Murphy.

Ken Loach í samstarfi við handritshöfundinn Paul Laverty tekst vel að segja frá blóði drifni frelsisbaráttu Írlands sem teygir sig fram í nútímann þar sem Norður-Írland tilheyrir enn Breska heimsveldinu.

Eins og heyra má er þetta mjög þung og pólitísk kvikmynd, en maður er nú stundum í stuði fyrir svoleiðis. 


The Odd Couple (1968)

The Odd Couple með Walter Matthau og Jack Lemmon á svo ótrúlega fastan stað í hjarta mínu, og einnig báðir leikararnir. Svo mikið að ég man enn þá daga sem þeir létust þótt ég hafi nú ekki verið gömul.
Myndin er byggð á samnefndu Broadway leikriti eftir Neil Simon og leikstýrð af Gene Saks. Hún segir frá einstakri vináttu Felix Ungar (Jack Lemmon) og Oscar Madison (Walter Matthau).
  Eftir að kona Felix slítur hjónabandinu reynir hann að fremja sjálfsmorð, sem tekst mjög erfiðlega hjá honum. Besti vinur hans, Oscar, sem er nýlega fráskilinn, tekur hann að sér og býður honum að flytja inn til sín. Vandmálið er hins vegar að Felix er taugaveiklaður snyrtipinni meðan Oscar er kærulaus sóði. Nú þurfa vinirnir tveir að búa saman án þess að ganga frá hvor öðrum.

Það er kannski ekki mikill tilgangur með The Odd Couple en þrátt fyrir það er hún tímalaus skemmtun og ég ligg í gólfinu af hlátri í hvert einasta skipti sem ég horfi á myndina. Jack Lemmon og Walter Matthau hafa ótrúlegt “chemistry” sem sést einnig í öllum hinum kvikmyndunum sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur saman. Það fer ekki milli mála að þeir voru góðir vinir utan hvíta tjaldsins, enda hvíla þeir hlið við hlið í kirkjugarðinum.

“I can’t take it anymore, Felix, I’m cracking up. Everything you do irritates me. And when you’re not here, the things I know you’re gonna do when you come in irritate me. You leave me little notes on my pillow. Told you 158 times I can’t stand little notes on my pillow. ‘We’re all out of cornflakes. F.U.’ Took me three hours to figure out F.U. was Felix Ungar! It’s not your fault, Felix; it’s a rotten combination, that’s all. “


Benjamín Dúfa (1995)

Kvikmynd úr æsku sem hafði ótrúlega mikil áhrif á mig. Hún er gerð eftir samnefndri bók eftir Friðrik Erlingsson.
Í myndinni snýr fullorðinn maður, Benjamín, aftur á æskuslóðir og rifjar upp atburði sem gerðust þar þegar hann var ungur strákur. Benjamín stofnaði ásamt þrem vinum sínum: Baldri, Andrési og Róland, riddarareglu Rauða Drekans. Saman börðust þeir fyrir réttlæti í hverfinu en málið flækist þegar önnur regla lítur dagsins ljós. Átök drengjanna enda síðan með grafalvarlegum afleiðingum.
Benjamín Dúfa er áhrifamikil og tilfinningaþrungin saga. Ég man að það fylgdu mörg tár í hvert sinn sem ég horfði á hana sem krakki.
 Þrá ungu drengjanna fyrir réttlæti og sjálfstæði þeirra í að eltast við það eru ótrúlega fallegir þættir í sögunni og sitja mjög fast í mér eftir öll þessi ár.



The Departed (2006)

The Departed er leikstýrð af Martin Scorsese og hlaut fjögur Óskarsverðlaun, m.a. fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn. Myndin skartar heimsfrægum leikurum á borð við Leonardo DiCaprio, Jack Nicholson, Matt Damon, Mark Whalberg ofl.

Kvikmyndin gerist í Boston þar sem lögreglan er að kljást við írska mafíósann Frank Costello (Jack Nicholson). Löggan Billy Costigan (Leonardo DiCaprio) er fenginn til að vera “undercover” hjá Frank Costello og kemur sér í innsta hring hjá honum. Á sama tíma er glæpamaðurinn Colin Sullivan (Matt Damon) sem vinnur fyrir Costello fenginn til að vera “undercover” hjá lögreglunni í Boston. Billy og Colin verða báðir djúpt sokknir í tvöföldu líf sín og keppast á við að komast að tilvist hvors annars.

"When you decide to be something, you can be it. That's what they don't tell you in the church. When I was your age they would say we can become cops, or criminals. Today, what I'm saying to you is this: when you're facing a loaded gun, what's the difference?"

The Departed er einstaklega góð mynd. Söguþráðurinn er spennandi og mjög skemmtileg “twist” koma fram. Það eru ekki margar myndir af þessari gerð sem heilla mig en The Departed dró mig strax inn og sat ég á sætisbrúninni allan tímann. Eina sem pirraði mig á köflum var hreimurinn hjá mörgum af leikurunum, en það er hægt að horfa fram hjá því. Rottan í bláenda myndarinnar er svo án efa frábært “touch”.


Back to the Future (trilogy) (1985-1990)

Einar af mínum uppáhaldsmyndum sem ég horfi reglulega á. Hvað er svo sem hægt að segja? Back to the Future myndirnar eru algjörlega ‘legendary’ og flestir þekkja þær.
Myndirnar eru leikstýrðar af Robert Zemeckis og Micheal J. Fox fer með aðalhlutverkið ásamt Christopher Lloyd sem er ógleymanlegur í hlutverki sínu sem brjálaði vísindamaðurinn. Unglingurinn Marty McFly (Michael J. Fox) og Dr. Emmett Brown (Christopher Lloyd) lenda í ýmsum ævintýrum þegar þeir breyta DeLorean bíl í tímavél. Án efa myndir sem allir verða að sjá, og láta krakkana sína sjá. 

"Don't worry. As long as you hit that wire with the connecting hook at precisely 88mph the instant the lightning strikes the tower... everything will be fine."


The Way We Were (1973)

The Way We Were er almennt talin ein af fyrstu ‘chick-flick’ myndunum. Kannski er það þess vegna sem hún höfðar svona til mín. Það sem ég elska hins vegar við myndina er að hún hefur ekki hinn týpíska ‘chick-flick’ endi. Það er líka eitthvað svo ótrúlega heillandi við Bandaríkin á stríðsárunum og ástarsögu á þeim tíma. Myndin er leikstýrð af Sydney Pollack og Robert Redford fer með aðalhlutverkið ásamt Barbra Streisand.
Katie Morosky og Hubbell Gardner kynnast fyrst í háskóla á sínum yngri árum. Þau eru ótrúlega ólík. Katie er málgefin, skoðanaföst og hefur mikinn áhuga á pólitík. Hubbell er hins vegar rólegur, áhyggjulaus og hefur engar ákveðnar pólitískar skoðanir. Þau rekast á hvort annað aftur í enda seinni heimsstyrjaldarinnar og verða brjálæðislega ástfangin. 

Hubbell laðast að Katie vegna ákveðni og sjálfstrausts hennar en það eru sömu eiginleikar hennar sem hann á erfitt með að höndla. Katie þráir Hubbell svo mikið að hún fórnar skoðunum sínum og ákveðni til að hann eigi auðveldara með hana. Þau gifta sig en þrátt fyrir ástríðufulla ást þeirra eiga Katie og Hubbell mjög erfitt með að vera saman.  Það er síðan bitursætt þegar þau átta sig á því að þau munu aldrei ganga upp.

Lagið ‘The Way We Were' með Barbra Streisand er vel þekkt og vann myndin Óskarsverðlaun fyrir það og tónlistina í myndinni.

“Your girl is lovely, Hubbell.” 


----------------------------------------------

Aðrar kvikmyndir sem gætu átt heima á þessum lista eru:

Lord of the Rings (trilogy) (2001-2003)

The Green Mile (1999)

The Shawshank Redemption (1994)

The Lion King (1994)

Seven (1995)

The Silence of the Lambs (1991)

Stand by Me (1986)