Saturday, January 30, 2010

Bloody Sunday (2002)


Á þessum degi fyrir 38 árum síðan voru 27 óbreyttir borgarar í Derry á Norður-Írland skotnir af breskum hermönnum, 13 af þeim létust strax og 1 lést af skotsárum mánuðum síðar. Í sögu Írlands er þessi dagur kallaður Bloody Sunday. Í tilefni dagsins var sýnd myndin Bloody Sunday á breskri sjónvarpsstöð og ég ákvað að horfa. Myndin sýnir atburði dagsins 30. janúar 1972 frá sjónarhorni stjórnmálamannsins Ivan Cooper (leikinn af James Nesbitt). Ivan Cooper skipuleggur friðsæla mótmælagöngu til að krefjast réttinda fyrir írskra borgara, hann skipuleggur gönguna og safnar saman fólki þrátt fyrir að breskir hermenn lýstu því yfir að slíkar göngur séu hér með bannaðar. Cooper heldur því fram að það séu almenn mannréttindi að fá að berjast friðsamlega fyrir sínum málstað og hann hvetur íbúa Derry til að sína samstöðu. Mikil áhersla er lögð á að mótmælagangan verði friðsamleg og eru IRA samtökin beðin um að taka ekki þátt með sínum venjulegu látum. Cooper vill sýna að ofbeldi mun ekki færa þeim aukin réttindi. Breskir hermenn gera allt í sínu valdi til að stoppa gönguna og setja upp hindranir á götum borgarinnar. Þegar nokkrir ungir menn skiljast frá fjöldanum og byrja með læti bregðast hermennirnir illa við. Ungu Írarnir kasta steinum og hrópa móðganir, í fyrstu eru tveir óvopnaðir drengir skotnir til bana. Að sjálfsögðu veldur þetta mikilli reiði meðal mótmælenda og gangan fer úr böndunum. Hins vegar var aldrei sýnt fram á að bresku hermönnunum hafi verið ógnað af írska múgnum en þrátt fyrir það voru 13 menn skotnir til bana.
Myndin virðist ef til vill vera hlutdræg af hálfu Íra en að mínu mati sýnir hún báðar hliðar eins hlutlaust og mögulegt er. Staðreyndin er einfaldlega sú að allt bendir til þess að aðgerðir breskra hermanna hafi verið hræðilega óþarfar og hafa hreint út verið kallaðar morð. Hermennirnir héldu því fram að mennirnir sem létust hafi verið vopnaðir byssum eða sprengjum, en engin vopn fundust á líkunum.
Bloody Sunday er tekin upp í heimildarmyndastíl sem gerir hana raunvörulega og því mun átakanlegri. Hún er laus við alla væmni og persónurnar eru trúverðulegar. Áhorfandanum líður eins og hann sé í miðju átakanna og er oft mjög erfitt að horfa upp á atburði sunnudagsins. Myndin dregur upp sanna mynd af Norður-Írlandi á þessum tíma og erfiðleikunum sem fólkið þar hefur þurft að fást við.
Leikararnir eru alveg hreint magnaðir, en hefði ég ekki haft mikla þjálfun í skilningi írsks hreims ætti ég ef til vill erfitt með að skilja sum samtölin. James Nesbitt er framúrskarandi sem Ivan Cooper. Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum manni, hann einfaldlega 'blew me away'. Vonbrigði hans í enda myndarinnar eru svo raunvöruleg. Friðsæla mótmælagangan hans endaði í blóðbaði og honum finnst hann vera ábyrgur. Orð hans sem Ivan Cooper í enda myndarinnar eru svo sannarlega sönn því eftir Bloody Sunday hafa IRA samtökin aldrei skort stuðning, þetta kvöld skráðu óteljandi ungir menn sig í ofbeldissamtökin og geta breskir hermenn sér um kennt.
"I just want to say this to the British Government... You know what you've just done, don't you? You've destroyed the civil rights movement, and you've given the IRA the biggest victory it will ever have. All over this city tonight, young men... boys will be joining the IRA, and you will reap a whirlwind."

Bloody Sunday vann ótal verðlaun og var vel tekin af gagnrýnendum. Myndin vann meðal annars "Audience Award" á Sundance kvikmyndahátíðinni og "Golden Berlin Bear" á alþjóðlegukvikmyndahátíðinni í Berlín.


Notorious (1946)



Ég missti af þessari í tíma svo ég fann hana á netinu og horfði.
Notorious er leikstýrð af Alfred Hitchcock og í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Ingrid Bergman. Bergman leikur Alicia Huberman, faðir hennar er settur í fangelsi fyrir að vera njósnari nasista og þar fremur hann sjálfsmorð. Alicia er boðið tækifæri til að bæta upp fyrir gjörðir föður hennar og hreinsa sig af skömm fjölskyldunafnsins með því að komast í innsta hring nasistavini föður hennar í Rio de Janeiro og njósna fyrir föðurland sitt. Henni er boðið þetta af útsendara Bandarísku stjórnarinnar, T.R. Devlin sem hún verður síðar ástfangin af.
Ég hafði mjög gaman af Notorious og finnst hún án efa vera með betri myndum sem ég hef séð. Ingrid Bergman er einfaldlega stórkostleg kona, það eru varla til orð. Hún leikur hlutverkið af þvílíkri snilld. Alicia Huberman þráir að losna undan þeirri skömm sem faðir hennar hefur þröngvað á hana. Þegar henni er gefið tækifærið neyðist hún til að skilja við glæfralegu fortíð sína og hjálpa föðurlandinu með því að gerast eiginkona nasista í Brasilíu. En Alicia verður hopelessly ástfangin ef útsendaranum T.R. Devlin og fer ekki leynt með það gagnvart honum. Leikur Bergman er svo raunvörulegur og gallalaus og Cary Grant er ekkert síðri í hlutverki Devlin. Hann er kaldur og reynir að hylja tilfinningar sínar til Alicia. En Grant tekst stórkostlega að sýna vaxandi ást Devlin lúmskt með augnagotum hér og þar, mjög gaman að fylgjast með því. "Chemistry-ið" á milli Bergman og Grant er ótrúlegt, spennan á milli þeirra vex út alla myndina og áhorfandinn þráir ekkert heitar en að þau nái saman. Cary Grant er þvílíkur karlmaður. Þeir gera þá ekki svona lengur...

Endir myndarinnar veldur svo sannarlega ekki vonbrigðum, eftir að nasista-eiginmaður Aliciu, Alex Sebastian, eitrar fyrir henni að ráði móður sinnar kemur Devlin og bjargar henni. Loksins játar hann ást sína og ber hana út úr húsinu. Þau skilja eftir Alex Sebastian, og þegar hann gengur upp tröppurnar og útidyrahurðin lokast veit áhorfandinn upp á hár hvaða örlög bíða hans, og auðvitað á hann þau fyllilega skilið.
Frábær mynd. Eina sem mér fannst leiðinlegt er að fallegu litir borgarinnar Rio de Janeiro sáust ekki. Mér fannst sérstaklega erfitt þegar Alicia og Devlin standa á svölunum með hafið, ströndina og himininn í bakgrunn að sjá ekki stórkostlegu litina sem eflaust fylgdu því. En auðvitað var lítið hægt að gera í því! Annars var ég mjög sátt.

Couples Retreat (2009)


Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Couples Retreat. Vince Vaughn er án efa einn af mínum uppáhalds gamanleikurum en þessi mynd er einfaldlega hræðileg. Vaughn hefur reyndar sín móment, annars hefði ég gefist upp á myndinni vandræðalega snemma. Malin Akerman er líka fín og "chemistry-ið" á milli hennar og Vaughn er mjög gott. Annars er flest við Couples Retreat slæmt. Grínið feilar oftar en ekki og er frekar sársaukafullt að fylgjast með því.
Í stuttu máli fjallar myndin um fjögur pör sem fara í prógram á hitabeltiseyju til að laga vandamálin í sambandinu. Samtölin eru yfirborðskennd og flestir karakterarnir eru leiðinlegir. Myndin endar síðan á vandræðalega góðan hátt, miðað við erfiðleika hjónanna út mest alla myndina.
Ég verð eiginlega bara niðurdregin á að skrifa um þessa mynd, svo ég læt þetta duga. Vince Vaughn er það eina góða við Couples Retreat. Hann leikur reyndar sama karakter og alltaf, en þrátt fyrir það finnst mér hann skemmtilegur.

Thursday, January 28, 2010

Sherlock Holmes (2009)


Ætli ég nýti ekki veikindaleyfið til að blogga aðeins.
Skellti mér á Sherlock Holmes um daginn, salurinn var pakkfullur og ég verð að segja að það er langt síðan ég hef upplifað svona frábæra bíóstemningu. Myndin kom mér skemmtilega á óvart. Satt að segja var sjóðheitur Robert Downey Jr. það eina sem ég var viss um að sjá, svo var þetta bara frábær afþreying.
Varla þarf að nefna að sögurnar um Sherlock Holmes eftir Arthur Conan Doyle eru tímalaus snilld og því var ákveðið "challenge" fyrir Guy Ritchie og félaga að gera góða mynd sem endurspeglaði ekki of mikið af Hollywood. Persónulega fannst mér þeim takast það. Vissulega er myndin frekar commercial en hún er samt frumleg á ákveðinn hátt og hefur mikinn sjarma. Það er ýktur ævintýrafílingur í henni sem höfðar einstaklega mikið til mín. Búningarnir, sviðsmyndin, myndatakan og tónlistin vinna saman að því að skapa einstaka stemningu.
London á þessum tíma er sýnd í drungalegu ljósi og daufum litum. Mér fannst söguþráður myndarinnar einnig mjög áhugaverður. Vegna ævintýrafílingsins átti ég reyndar stundum erfitt með að átta mig á hvort þeir ætluðu að fara "rökréttu eða yfirnáttúrulegu leiðina". En það skýrist síðan allt.
Robert Downey Jr. er frábær sem Sherlock Holmes. Hann nær svo ótrúlega vel hroka og mikilmennsku karaktersins. Auk þess leikur hann hlutverkið með prakkaraglotti og sýnir vel öfgafulla ástríðu Holmes þegar kemur að vinnu hans.
Jude Law kom mér rosalega á óvart sem Dr. Watson. Hann og Downey eru frábærir saman og ná vel einstakri vináttu Holmes og Watson. Rachel McAdams leikur einnig skemmtilegan karakter.
Kannski er ég einföld en ég hef alla vega ekkert slæmt að segja um Sherlock Holmes.