Friday, December 4, 2009

The Twilight Saga: New Moon (2009)

Ég fór á frumsýninguna á New Moon með 27 ára systur minni sem er eins og hin versta unglingsstelpa þegar kemur að Twilight bókunum. Það var vægast sagt sársaukafullt að horfa á þessa mynd og ekki gerði troðningur öskrandi stelpna hana skárri. Af einhverjum ástæðum drógst ég ekki inn í þetta æði Twilight bókanna og er því mjög fegin. Ég las fyrstu bókina á ensku og varð hálf flökurt yfir væmninni og tæpum söguþræði hennar.
Í New Moon eru vampíran Edward Cullen (Robert Pattinson) og Bella Swan (Kristen Stewart) búin að opinbera samband sitt og allt virðist ganga vel. En Bella getur aldrei fyllilega átt heima með Edward og til að vernda hana flytur hann og fjölskylda hans burt. Bella lendir þá í ástarsorg og reynir af öllum mætti að komast yfir Edward en hún vælir samt endalaust yfir því hvað það sé ómögulegt. Á meðan myndar hún sterka vináttu við Jacob Black (Taylor Lautner) sem má kalla "the boy next door" kvikmyndarinnar. Þegar Jacob verður síðan hrifinn af Bellu vandast málið fyrir hana. 

Leikurinn er aðallega það sem gerir myndina lélega auk veiks söguþráðs. Kristen Stewart er svo slæm leikkona að það eru varla til orð sem lýsa því. Ég fann fyrir lönguninni til að einfaldlega loka augunum meðan hún var á skjánum, sem er ekki gott því hún er yfirgnæfandi aðalhlutverk. Robert Pattinson er nú ekki mikið skárri, en greyið strákurinn þarf að fara með svo illa skrifaðar, væmnar línur að það er kannski ekki furða. Taylor Lautner hefur breyst mikið frá fyrstu myndinni, allt í einu er hann vöðvafjall. Verð að gefa honum hrós fyrir það að helga sig hlutverkinu. Það átti að finna annan leikara í hans stað því karakterinn hans, Jacob, fullorðnast og stækkar svo mikið á stuttum tíma. Þá tók Lautner sig til og gerði einmitt það. Hann er líka ekki alslæmur leikari. 

Tæknibrellurnar voru einstaklega góðar í New Moon, hún má eiga það. Fáránlega flott þegar strákarnir breytast í úlfa, ótrúlega vel gert. Tónlistin var líka fín. 
Maður verður víst að líta á þessa mynd sem eitt annað æðið sem unglingsstelpur missa sig yfir og ekkert meira. Þá veldur hún víst ekki vonbrigðum því hún halar inn þvílíkum peningum, líkt og bækurnar. 

(500) Days of Summer (2009)


Er ekki viss hvort hún er komin út hér á landi, ef svo er missti ég alla vega af því. En ég hafði heyrt mikið talað um þessa mynd á netinu og ákvað að downloada henni. 
(500) Days of Summer fjallar um Tom Hansen (Joseph Gordon-Levitt) og stúlku drauma hans Summer Finn (Zooey Deschanel). Myndin segir frá sambandi Tom og Summer, sem virðist vera fullkomið í fyrstu en verður stormasamt því Summer neitar að "skilgreina sambandið". Tom trúir á sanna ást og að líf hans sé ekki fullkomið fyrr en hann finnur þá einu réttu. Summer er ekki sama sinnis og nýtur einfaldlega frelsisins. Sagan er ekki sögð í réttri tímaröð og byrjar á því að Summer virðist hafa sagt Tom upp. Tom er í ástarsorg og fylgjum við honum í gegnum erfiða tíma ásamt því að hoppa aftur í tímann og fylgjast með sambandi þeirra þróast. Þetta er mjög skemmtileg hugmynd og gefur myndinni einstakan blæ. 


(500) Days of Summer er engan veginn hin týpíska rómantíska gamanmynd og er meira að segja varað við því í byrjun myndarinnar að þetta sé engin ástarsaga. Það er mjög upplífgandi hvað hún er ólík öllu sem áður hefur verið gert. Loksins er það strákurinn sem lendir í ástarsorg því stelpan er ekki tilbúin í samband, ekki oft sem maður sér það í kvikmyndum. Einnig eru samskipti persóna mjög raunvöruleg og Joseph Gordon-Levitt er frábær í hlutverki Tom og heldur myndinni alveg uppi. Hann vekur upp samúð áhorfandans ásamt því að skemmta honum yfir vonleysi sínu. Samtölin eru skemmtileg og fyndin. Zooey Deschanel er ótrúlega heillandi sem Summer Finn. 
(500) Days of Summer skilur áhorfandann eftir með ólýsanlega tilfinningu. Endir myndarinnar er svo raunvörulegur og skilur ekki eftir þessi venjulegu ,,af hverju er lífið mitt ekki svona?" viðbrögð í áhorfandanum sem rómantísk gamanmynd frá Hollywood gerir. Heldur lætur (500) Days of Summer áhorfandann hugsa: ,,vá svona er einmitt lífið." Og það er alltaf góð tilfinning að vita að við erum ekki ein í erfiðleikum ástarinnar, meira að segja Hollywood skilur okkur.


The Man in the Iron Mask (1998)

Datt inn í hana á bíórásinni um daginn þar sem hún er reglulega sýnd. Ég verð að viðurkenna að síðan ég var krakki hef ég dýrkað þessa mynd, þótt hún sé kannski ekki alveg sú besta í heimi. Skytturnar þrjár bregðast aldrei. 



Með aðalhlutverk fara m.a. Leonoardo DiCaprio, Jeremy Irons, John Malkovich og Gérard Depardieu. Einnig má sjá Hugh Laurie fara með minniháttar hlutverk, sem ég hafði mjög gaman af. Myndin er leikstýrð af Randall Wallace, sem hefur skrifað handritið að stórmyndum líkt og Pearl Harbor og Braveheart. 
Í The Man in the Iron Mask eru skytturnar þrjár, Porthos, Athos og Aramis, orðnir miðaldra menn og hættir ævintýralífinu sem skyttur franska konungsins. Lærlingur þeirra D'Artagnan er hins vegar yfirskytta hjá Louis XIV Frakkakonungi sem er illgjarn og vegna munaðarlífstíls hans og kostnaðarsamra stríða sveltur þjóðin. En D'Artagnan þjónaði föður Louis XIV og vill vera trúr honum með því að standa fast við hlið sonar hans og vona að einn daginn muni Louis verða sá konungur sem Frakkland á skilið. 
En Porthos, Athos og Aramis eru komnir með nóg af illgirni konungsins og ætla sér að bjarga málunum. Aramis vissi eitt alvarlegt leyndarmál um konungsfjölskylduna. Þegar Anne drottning fæddi Louis XIV konung, vissi enginn að það hefðu komið tvíburar. Eineggja tvíburabróðir Louis var sendur í afskekkta sveit til að alast upp þangað til hann varð eldri. Þá var sett á hann járngríma til að hylja andlit hans og honum var stungið í bastilluna, fangelsi Parísar. Skytturnar þrjár ætluðu sér að frelsa tvíburabróður konungs, Philippe, og skipta hinum illgjarna Louis út fyrir hann. Vissulega virðist áætlun þeirra vera ómöguleg en hún var vandlega skipulögð og er spennandi að fylgjast með þeim framkvæma hana. 
The Man in the Iron Mask er hin fínasta dægradvöl og mjög spennandi á köflum. Leonardo DiCaprio er einstakur leikari og er mjög góður sem Louis Frakklandskonungur og tvíburabróðir hans Philippe. Jeremy Irons er fullkominn sem Aramis og Gérard Derpardieu veitir "comic relief" í gegnum myndina. John Malkovich fer hins vegar alltaf í taugarnar á mér og því ekki að marka hvað mér finnst um hann. 
Búningarnir í kvikmyndinni eru mjög vel gerðir og ná þessu tímabili fullkomlega. Einnig sýnir myndin frábærlega höll konungs, Versalir, og þann munað sem konungurinn lifir við meðan bróðir hans dvelst í Bastillunni, fangelsi Parísar. Samtölin eiga það hins vegar til að vera stirð finnst mér og kjánaleg á köflum en tónlistin er epísk og frábær. 

The Man in the Iron Mask er ein af þeim myndum sem ég get horft á aftur og aftur. Það gæti verið vegna ánægju minnar á ævintýramyndum, en ég hef alla vega mjög gaman af henni.



Harry Potter and the Half-Blood Prince (2009)

Sem gífurlegur aðdáandi Harry Potter bókanna hef ég alltaf átt erfitt með að kunna að meta kvikmyndirnar byggðar á bókunum, enda hafa þær verið misgóðar. Loksins tókst mér samt að meta þær sem allt annað listform en bækurnar. Og viti menn, ég varð engan veginn fyrir vonbrigðum með the Half-Blood Prince! Auðvitað vantar ýmislegt og furðulegustu hlutum er bætt inn en allt í allt hafði ég mjög gaman af henni. Reyndar á ég erfitt með að skilja hvað þeir ætla að gera í næstu myndum því það vantaði nokkur lykilatriði í þessa. J.K. Rowling hefur samt haft umsjón með kvikmyndunum og verður maður að treysta því að hún leyfi þeim ekki að gera nein alvarleg mistök.

David Yates hefur algjörlega sannað sig sem besti leikstjóri Harry Potter myndanna hingað til, enda leikstýrði hann the Order of the Phoenix ásamt þessari og mun hann leikstýra næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows.
Stemningin í the Half Blood Prince er mjög lýsandi fyrir bókina, áhorfandinn finnur stöðugt fyrir yfirvofandi hættu. Litirnir eru daufir og veðurfarið oftast slæmt. Sem dæmi má nefna að lestarferðin til Hogwarts hefur í fyrri myndum verið mjög glaðleg meðan lestin þeytist í gegnum sólskin og græn engi. En í the Half Blood Prince er lestarferðin köld og stíf, maður finnur fyrir óttanum.

Ef til vill voru ástarflækjur unglinganna of stór hluti af myndinni, sérstaklega með tilliti til þess að lykilatriði sögunnar fengu að fjúka fyrir þeim. En þau veittu myndinni þó húmor og léttleika sem annars hefði verið lítið af.

Atburðarás kvikmyndarinnar virðist leiða að ákveðnum hápunkti sem veldur mjög miklum vonbrigðum því hann kemur aldrei. Sleppt var bardaganum í endann á skólalóð Hogwarts og finnst mér það stór galli á myndinni því the death eaters virðast sleppa auðveldlega burt frá voðaverkinu sem þau frömdu.

Eitt sem verður engan veginn tekið frá Harry Potter myndunum er stórkostlega leikaralið þeirra. Alan Rickman er einfaldlega guð. Hann leikur Severus Snape af þvílíkri snilld og túlkar vel þær upplýsingar um karakterinn sem hann fékk hjá J.K. Rowling sjálfri. Michael Gambon komst loksins inn í hjarta mitt sem Albus Dumbledore í þessari mynd. Eftir dauða Richard Harris eftir aðra myndina átti ég mjög erfitt með að sætta mig við Gambon og fannst hann ekki ná anda Dumbledore jafn vel og Harris. En í the Half Blood Prince hefur Dumbledore þróast mikið sem karakter og er orðinn flóknari og þjáðari, sem Michael Gambon leikur fullkomlega.
Augljóst er að Rupert Grint er bestur meðal ungu leikaranna í myndinni. Hann er frábær sem Ron Weasley og er hann sá eini af þríeykinu sem hefur staðist væntingar mínar til karaktersins og gott meira.

Eflaust er hægt að finna eitthvað gott við Daniel Radcliffe en ég einfaldlega get það ekki. Hann er svo langt frá því að vera sá Harry Potter sem ég sé fyrir mér. Auðvitað er mjög erfitt að “casta” barnaleikara og vona að þeir vaxi vel úr grasi. Radcliffe hentaði vel sem Harry í fyrstu myndunum en strax og hann varð eldri fannst mér allt sem hann gerði svo veikt og vælulegt. Sem er svo ótrúlega langt frá Harry Potter.

Eitt sem ég var gífurlega ánægð með var leikaravalið á ungum Voldemort. Ungi Tom Riddle (Voldemort) á munaðarleysingjahælinu gaf mér þvílíkan hroll. Einnig var hann einstaklega óhugnanlegur sem unglingur. Mjög vel gert hjá þessum tveim leikurum sem voru valdnir til hlutverksins.

Ég hef voða lítið fleira að segja nema að ég bíð spennt eftir næstu tveim hlutum Harry Potter and the Deathly Hallows!