Saturday, October 31, 2009

The Descent (2005)

Jæja, hér er annað blogg. 

Um daginn ákvað ég að hafa hryllingsmyndakvöld. Ég hafði frétt það frá systur minni að "The Descent" væri mest ógnvekjandi mynd sem hún hafði séð og ákvað að það væri einmitt það sem ég væri að leita að. Ég hefði mátt vita að ég yrði fyrir vonbrigðum því systir mín er frekar mikill hræðslupúki þegar kemur að kvikmyndum...
Myndin er svo sem alveg ágæt. Engin til að hrópa húrra fyrir. Ég tók eftir því á imdb að hún hefur fengið mjög misjafna dóma. 

Ári eftir að Sarah missir eiginmann sinn og dóttur ákveða vinkonur hennar að ævintýraleg hellaskoðun í góðra vina hópi sé einmitt það sem hún þarf á að halda. Vinkonurnar fara ofan í djúpan, djúpan helli og fara í gegnum þröng göng að til að komast enn dýpra. Þegar steinahrun verður lokast útgönguleið vinkvennana og þær festast í hellinum. Í neyð kemur fram sanna eðli þeirra og ýmsir hlutir koma upp á yfirborðið. Fyrr en varir uppgvöta þær tilvist blóðþyrstra skepna sem lifa neðanjarðar í hellinum og þær berjast fyrir lífi sínu í leit að útgönguleið. 

Góð hugmynd og eflaust erfitt fyrir fólk með innilokunarkennd að horfa á en mér fannst mjög leiðinlegt þegar einhverjar hryllilegar verur komu inn í myndina. Kannski er það bara ég, en ég á alltaf voða erfitt með að finnast svona ekki kjánalegt. Það eyðilagði myndina eiginlega fyrir mér, í staðinn fyrir að vera hrædd leið mér asnalega. 
Annars komst ég alveg í gegnum "The Descent" og held að það fari eftir smekk hvert álit fólks er á henni. Ég er alla vega enn að leita mér að hinni virkilega ógnvekjandi mynd til að hafa á næsta hryllingsmyndakvöldi.

Death on the Nile (1978)



Þar sem ég var að átta mig á því að á morgun gengur nóvember í garð ætla ég að punga út bloggfærslu, ef til vill nokkrum.  Stórfurðulegt hvað tíminn líður hratt.


Mynd sem ég horfði á nýlega var “Death on the Nile” frá árinu 1978.  Í aðalhlutverki sem spæjarinn Hercule Poirot er hinn stórskemmtilegi Peter Ustinov. Með önnur hlutverk fara Bette Davis, Mia Farrow, Maggie Smith og fleiri.
Vegna ástar minnar á Egyptalandi og þeirrar staðreyndar að ég hef verið alin upp við kvikmyndir byggðar á sögum Agöthu Christie var það ljóst að ég varð einfaldlega að sjá “Death on the Nile” sem allt í einu poppaði upp á Sky eftir margar tilraunir mínar til að finna hana.

Myndin gerist í Egyptalandi, að mestu í siglingu á ánni Níl. Þegar ríka konan Linnet Ridgeway finnst dáin á skemmtiferðarskipinu S.S. Karnak tekur Hercule Poirot til starfa við það sem hann gerir best, að finna morðingjann. Með hjálp vinar síns Johnny Race rannsakar Hercule Poirot hverja einustu manneskju á skipinu því ein þeirra hlýtur að hafa myrt Linnet. Hann kemst hann að því að allir á skipinu höfðu góða ástæðu til að vilja Linnet dauða, og þá vandast málið. En með snilligáfu sinni tekst Poirot að komast að sannleikanum sem kemur öllum svo sannarlega á óvart.

Ég hef alltaf jafn gaman af myndunum um Hercule Poirot og var þessi engin undantekning. Ég skemmti mér við að leysa málið “samhliða” Poirot og koma með ágiskanir um hver morðinginn sé.
Í “Death on the Nile” eru sýnd einstök menningarverðmæti Egyptalands eins og píramídarnir við Giza, sfinxinn, Karnak hofið í Luxor og Abu Simbel hof Ramesar II og skapaði það skemmtilega stemningu í myndinni.
Mér fannst dálítið skrítið að sjá Peter Ustinov sem Poirot því ég er svo rosalega vön David Suchet í hlutverkinu. En það var aðeins í fyrstu því hann stóð sig mjög vel sem spæjarinn.

Mæli hiklaust með myndinni fyrir alla sem hafa gaman af svona “murder mysteries”.